150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:06]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Í fyrsta lagi er spurt hvernig við sjáum fyrir okkur að þeim fjármunum sem eru á fjárlögum til næsta árs, 1,1 milljarður — vegna þess að annað er auðvitað bundið í búsetuskerðingar, í verðlagshækkanir, eða sem sagt líffræðileg breyting — verði ráðstafað á næsta ári. Það liggur ekki fyrir. Ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um það. En það er í skoðun hvernig þeim fjármunum er best varið.

Varðandi lífskjarasamninga er það svo að mjög stór hluti af aðgerðum lífskjarasamninganna heyra einmitt undir félagsmálaráðuneytið og við höfum einsett okkur og erum að vinna að því að öll þau frumvörp sem tengjast lífskjarasamningunum komi fram á komandi þingvetri. En bara svo að ég svari því alveg hreint: Nei, við erum ekki með á einhverjum einum stað nákvæmlega hvað lífskjarasamningarnir kosta í umræddum fjárlögum, ekki samantekið. En við sjáum auðvitað fæðingarorlofið, sjáum almennar íbúðir, það á eftir að klára útfærslur á þáttum sem lúta m.a. að fjármögnun óhagnaðardrifinna félaga, eiginfjárlánunum o.s.frv. þannig að eðli málsins samkvæmt liggur ekki nákvæm tala fyrir á yfirstandandi ári vegna þess að við erum líka að vinna frumvörp og erum að vinna þau í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins því að einnig var kveðið á um það að við skyldum gera það. Við skyldum vinna útfærslurnar í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og það höfum við verið að gera og eðli máls samkvæmt getur það tekið breytingum.

Ríkisstjórnin er mjög einhuga og áfram um að standa vel að framkvæmd þessara lífskjarasamninga og eins og ég segi geri ég ráð fyrir að öll frumvörp sem lúta að þeim muni koma fram á komandi þingvetri.