150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:09]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er einmitt mjög mikilvægt að það sé algerlega skýrt og komi fram að ríkisstjórnin ætli að standa við lífskjarasamningana. Eitt af þeim málum sem hæstv. ráðherra nefndi var hækkun á barnabótum sem hafa, öfugt við það sem maður gæti haldið af umræðunni, hækkað í tíð ríkisstjórnarinnar um ein 37%, þ.e. framlög til barnabóta.

Önnur af seinni spurningum mínum snýr að því hvort hæstv. ráðherra hafi um það upplýsingar hversu miklu fleiri börn og fjölskyldur þar með njóti barnabótanna sem afleiðingar af þeim hækkunum, því að eins og komið hefur fram hjá fleiri þingmönnum skiptir verulegu máli þegar við erum að tala um kjör fólks í landinu að þetta liggi fyrir.

Þá langar mig að lokum að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í fæðingarorlofið sem er vissulega verið að auka. Verið er að fara upp í tíu mánuði núna og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé með á reiðum höndum hvað það hefði kostað mikið að byrja á að lengja um tvo mánuði og síðan um einn, en ekki eins og er gert núna að byrja á einum mánuði og síðan um tvo.