150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:10]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vera algerlega hreinskilinn við hv. þingmann. Ég er ekki með það nákvæmlega í kollinum hvernig hækkun barnabóta mun skila sér nákvæmlega til hverrar fjölskyldu og hversu margar fjölskyldur eða hversu mörg börn njóta þeirra. Hins vegar væri hægt að taka það saman og koma þeim upplýsingum til hv. þingmanns.

Varðandi fæðingarorlofið gerum við ráð fyrir hækkun á milli ára. Árið 2019 fara rétt tæpir 13 milljarðar í fæðingarorlof, 2020 verða það rétt tæpir 15, þannig að hækkun er þar á milli ára rétt tæpir 3 milljarðar. Síðan er gert ráð fyrir að sú tala verði komin upp í 20 milljarða árið 2022. Því má gera ráð fyrir að lengingin, þegar hún verður að fullu komin til framkvæmda, sé um 4 milljarðar sem þýðir þá rétt rúmur milljarður, eitthvað því um líkt, mánuðurinn.

En auðvitað er þetta líka allt breytingum háð. Við sjáum þá þróun núna að endurreisn fæðingarorlofskerfisins er að byrja að skila sér í því að fleiri taka fæðingarorlof. Aukning varð á síðasta ári úr 91% í 95% og einnig taka fleiri feður fæðingarorlofið. Ég vil því helst trúa því að þær tölur sem við reiknum með í fjárlagafrumvarpinu, 20 milljarðar árið 2022, verði jafnvel enn þá hærri ef endurreisnin tekst. En það er ekki kostnaður fyrir ríkissjóð. Það er fjárfesting til framtíðar vegna þess að ef við búum vel að fjölskyldunum búum við vel í framtíðinni, þó að við sem hér erum verðum vonandi öll hætt í pólitík þegar þeir einstaklingar verða orðnir skattgreiðendur.