150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:15]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að á síðasta ári var fjármagn notað til að gera breytingar á krónu á móti krónu skerðingu og eins að gera breytingar varðandi skerðingar innan ársins þegar einstaklingar fara í vinnu á miðju ári — hvernig það er reiknað upp — allt til þess að hvetja til aukinnar atvinnuþátttöku. Á næsta ári er 1,1 milljarður áætlaður til þessa verkefnis. Vandinn er kannski sá að við höfum verið að vinna að ákveðnum breytingum sem lúta að því að innleiða breytt endurhæfingarkerfi og síðan kæmi starfsgetumat aftan við en ekki hefur verið vilji til þess, t.d. hjá breyttri forystu Alþýðusambandsins, að standa að slíku. Öryrkjabandalagið hefur heldur ekki viljað standa að slíku. Það er því alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, að í pípunum er mjög mikil fjölgun á næstu árum og hún heldur áfram. Hún er hins vegar líka vandamál í löndunum í kringum okkur, þetta er eilíft umræðuefni.

Nú er ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins nýbúinn að vera á fundi með ráðuneytisstjórum annarra ráðuneyta á Norðurlöndunum þar sem þetta sama vandamál er til staðar. Það sem við erum með á þingmálaskrá í vetur er að stíga skref varðandi innleiðingu starfsgetumats og breyttrar endurhæfingar. Við þurfum að fara að ná utan um það, hvort sem það endar með fullkomnu starfsgetumati eða ekki, að hætta að viðurkenna það sem samfélag að það sé eðlilegt að ungt fólk fari á örorku, jafnvel á aldur við þann sem hér stendur, í staðinn fyrir að við byggjum upp endurhæfingarúrræði. Við þurfum að nýta aukninguna í það á næstu árum fremur en að fara með það í slík úrræði. (Forseti hringir.)

Ég þykist vita að hv. þingmaður sé bandamaður minn í þessari hugsun, hann hefur verið það hingað til. (Forseti hringir.) Ég vonast til þess að hann sé það áfram vegna þess að það þarf svo sannarlega breytingar og þær eru boðaðar á komandi þingvetri.