150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Já, það er alveg rétt, ég deili áhyggjum hæstv. ráðherra af þessari þróun. Í skýrslu sem KPMG tók saman fyrir félagsmálaráðuneytið á sínum tíma komu fram skýr merki um að á öðrum Norðurlöndum hefur að mörgu leyti tekist að snúa þróuninni við. Þar skerum við okkur alveg klárlega úr. Þó að það sé hins vegar alveg rétt að lengst framan af vorum við með talsvert lægri örorkubyrði en önnur Norðurlönd. En sú mynd blasir allt öðruvísi við í dag.

Um er að ræða mjög brýnar kerfisbreytingar sem ráðast verður í og leggja þarf miklu meiri áherslu á endurhæfingu og endurhæfingarlífeyri þar sem það er á annað borð mögulegt. Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir það mætavel að þetta skiptir ekki bara máli hvað varðar framfærslu heldur félagsleg tengsl og lífsgæði fólks sem annars á á hættu að einangrast þar sem það er, m.a. vegna þess hvernig kerfið okkar virkar í dag, nær útilokað frá vinnumarkaði. Ég endurtek: Ég hef áhyggjur af því, sér í lagi þegar horft er til fjármálaáætlunar og þeirrar útgjaldaveislu, getum við sagt, sem á sér stað inn á næsta ár en síðan talsvert lítið svigrúm inn á árið 2021, að ekki verði fjármunir til skiptanna til að ráðast í þær breytingar sem nauðsynlegar eru.

Að lokum langar mig aðeins að spyrja hæstv. ráðherra út í hækkun hámarksgreiðslna í fæðingarorlofi. Ég fagna því skrefi sem hér er stigið en það er oft svo með stjórnmálin að við hreyfum okkur ansi hægt. 600.000 kr. viðmiðið var dregið upp í skýrslu um fæðingarorlofsmál árið 2015, held ég, og við erum að ná því nú fjórum árum síðar. Ég velti fyrir mér hvernig hæstv. ráðherra hyggst reyna að tryggja að sú viðmiðunarfjárhæð haldi í við launaþróun og kaupmátt fram á veginn.