150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:25]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég biðst velvirðingar á því ef einhver misskilningur hefur orðið milli mín og hv. þingmanns. Það sem ég sagði áðan í máli mínu var að við þurfum að skoða þetta í samhengi við launahækkanir á lengra tímabili. Ef við skoðum launahækkanir sem verið hafa frá 2015 til 2020, af því að við erum að ræða fjárlög á næsta ári, þá hafa lágmarkstekjur hækkað á því tímabili um 36,7%. Tekjutrygging fyrir fullt starf hefur farið úr 245.000 kr. í 335.000 kr. Þetta eru lágmarkstekjur á vinnumarkaði, fyrir vinnandi fólk. Ég er ekki að segja að þetta sé eitthvað sem auðvelt er að lifa af. Örorkulífeyririnn hækkar um hver áramót. Hann hefur hækkað um 53,6% og hefur farið úr 225.000 kr. í 345.000 kr. Það eru óskertar örorkulífeyrisbætur, það viðurkennist og er tekið fram hér. En þá segi ég: Við skulum líka tala um fólk sem er á vinnumarkaði og er statt þarna. Það er þess vegna sem ég sagði að það væri jákvætt að lífeyrir, eins og örorkulífeyrir, sé vísitölutengdur eða hækki um hver áramót, vegna þess að laun gera það ekki sjálfkrafa. Þess vegna eru kjarasamningsbundin laun. Þess vegna er samið um að laun hækki en lífeyririnn gerir það á lengra tímabili. Og það er að skila sér þarna inn, það skilar sér í þeim tölum sem ég nefndi.

En það sem ég velti fyrir mér vegna þess að hv. þingmaður er mikill baráttumaður fyrir málefnum örorkulífeyrisþega, og ég virði það, en þá hefði ég viljað sjá hv. þingmann koma í lið með ríkisstjórninni þegar kemur að því að reyna að draga úr nýgengi örorku, reyna að aðstoða fólk við að fara út á vinnumarkaðinn. Hvað getum við gert þar? Ég trúi því ekki að það sé bara króna á móti krónu skerðing, að ef hún verði afnumin þá sé þetta bara allt saman komið í lag. Við höfum dregið úr henni. Er það virkilega svo að ef við afnemum krónu á móti krónu þá hætti þessi fjölgun? (Forseti hringir.) Hvað þurfum við að gera? Getum við ekki komið í þá vegferð? Vegna þess að þegar við komumst í þá vegferð (Forseti hringir.) búum við til svigrúm til að bæta stöðu þessa fólks, sem við þurfum sannarlega að gera.