150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í dag og gær höfum við í Samfylkingunni gagnrýnt forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, hvernig hún stendur vörð um þá best settu en setur aðhaldskröfu í heilbrigðismálum og öðrum velferðarmálum, menntun og lögreglu svo dæmi séu tekin. Ríkisstjórnin tekur 300 millj. kr. af þróunarsamvinnu frá fátækustu ríkjum heims og færir í viðhald á hernaðarmannvirkjum á Keflavíkurflugvelli, sem okkur finnst sorglegt til að vita. Ríkisstjórnin ætlar að lækka framlög til stofnana sem sinna eftirliti með auðlind þjóðarinnar og leggur ekki til hvata til að styrkja innlenda umhverfisvæna framleiðslu, svo sem grænmetisræktun. Það er óskiljanlegt að ríkisstjórnin tryggi ekki bættan rekstur Landspítalans sem rekinn er í halla. Aðhaldskrafan á Landspítalann upp á rúman hálfan milljarð verður til þess ásamt of lágum framlögum að þjónustan verður skert og biðlistar lengjast. Samfylkingin gagnrýnir harðlega að útgjöld til framhaldsskóla lækki og að langt sé í land að meðaltali OECD og Norðurlandanna sé náð þegar kemur að framlögum til háskólanna okkar. Við gagnrýnum einnig að þeim sem þurfa að treysta á lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar sé haldið fátækustum með lægri hækkun en lægstu launataxtar. Við gagnrýnum það að selja eigi bankana áður en gerð hefur verið breyting á kerfinu sem leiðir til ódýrara og betra bankakerfis fyrir almenning og að áhættusömustu fjárfestingarnar verði ekki fjármagnaður með innlánum. En hæstv. ráðherra talar fyrir bankasölu og ég spyr því hvort hæstv. ráðherrann hafi trú á að banki eða hlutur úr banka verði seldur á árinu 2020.