150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki ekki stöðu þessa samtals varðandi uppgjör á launagreiðslum en það verður bara að hafa sinn gang. Það þarf eflaust að skiptast eitthvað á gögnum og það er ekki komin niðurstaða í það svo mér sé kunnugt um a.m.k. en það er ekkert óalgengt að stofnanir telji að launaliðurinn sé að einhverju leyti óbættur og þá er það tekið til skoðunar. Það eru fastar viðmiðunarreglur um það hvernig launaliðurinn er bættur eftir gerð kjarasamninga.

Í 23. kafla í fjárlagafrumvarpinu er fjallað um sjúkrahúsþjónustu og það er auðvelt að sjá þegar menn fara yfir kaflann í heild sinni og skoða einstaka liði að það er áhersla og hefur verið í mörg ár á að bæta fjármögnun í heilbrigðisþjónustu. Það eru um 110 milljarðar sem munar á heildarrammasettum útgjöldum á árinu 2020 borið saman við 2017 þegar ríkisstjórnin tók við, 110 milljarða útgjaldaaukning. 35% af henni hafa farið í heilbrigðismál þannig að ég hafna því alfarið að menn séu hér að reka stefnu þar sem ekki er horft til þess að það hafi verið þörf til á mæta þeirri stöðu sem var í heilbrigðismálum. Við höfum verið í stöðugri vegferð að mæta ákalli um frekari framlög. Ég tel hins vegar að það fari allt of lítið fyrir umræðu um það hvernig fjármagnið nýtist, hvort við séum að fá hámarksskilvirkni og inn í þá umræðu blandast umræðan um hlutverk einkageirans á móti hinum opinbera. Það er þar sem mér finnst að fjárlaganefndin ætti að taka til sín aukið hlutverk, fara ofan í saumana á því hvernig hið stóraukna framlag ríkisfjármálanna til heilbrigðismála hefur gagnast til að bæta þjónustuna.