150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek bara þessari hvatningu um að gera enn betur og ítreka orð mín um að ég hef lengi verið talsmaður þess að þingið og nefndasvið Alþingis hafi burði til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald sem lög gera ráð fyrir. Það er svo fjölmargt sem við getum gert betur. Hér höfum við verið að ræða um heilbrigðismálin en það er bara svo víða í ríkisrekstrinum þar sem við mættum vera með betri yfirsýn. Stundum hefur maður talað um þróunarsamvinnuna í þessu sambandi. Hvaða tilfinningu hefur þingið fyrir nýtingu þeirra fjármuna sem fara til þróunarsamvinnu? Það er góð nýbreytni að þingmenn eru nú farnir að fylgja því eftir, fara í vettvangsskoðanir, fylgja fjármununum eftir og sjá með eigin augum hvað er að gerast, hvernig fjármunirnir nýtast. Við tökum tiltölulega lítinn tíma í að ræða þetta, ég tek þetta dæmi af handahófi. Við erum líka með margar stofnanir þar sem engin stjórn er, engin sjálfstæð stjórn, og kannski oft og tíðum of lítil samskipti við þingið eða, ef því er að skipta, jafnvel við þau ráðuneyti sem eru yfir viðkomandi stofnunum um hvað er verið að gera í rekstrarmálum viðkomandi stofnana.

Þjónustusamningar eru einn liður sem mér er ofarlega í huga í augnablikinu. Við þyrftum að gera átak í að skrá alla slíka samninga og tengja alla greidda reikninga við samninga sem hafa verið undirliggjandi. Þar erum við eftirbátar annarra þjóða. Við höfum verið að gera átak í innkaupamálum. Það hefur skilað mjög miklum árangri. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut og við þurfum einfaldlega að búa þannig um hnútana að fólki líði eins og við séum að fara vel með það fé sem rennur til ríkisins til að sinna verkefnunum. Það verður ekki nema við höfum burði til þess að veita aðhald og fara ofan í saumana á einstaka málum og skilja hvernig þeim er ráðstafað.