150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég las það í fjölmiðlum að ég hefði sagt í gær að ég tryði því að hagspáin myndi ganga eftir. Ég man ekki eftir að hafa sagt það en ég talaði þeim mun meira um að við byggðum fjárlagafrumvarpið á opinberri hagspá og ætluðum ekki að kokka upp okkar eigin. Það er ekki vegna þess að við höfum svo mikla ofurtrú á hagspárgerðinni, heldur teljum við að það þurfi að vera eitthvert traust, hlutlaust viðmið. Það er ekki allur munur á þeim spám sem við getum litið til. Þær liggja á bilinu frá 1% í hagvöxt á næsta ári upp í 2,6%. Hins vegar er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er ekkert víst að þetta gangi eftir. Mér sýnist sem hagfræðin sé ekki mikil nákvæmnisvísindi og hagfræðingar eru ekki bara að spá um framtíðina. Þeir eru enn þá að spá því hver hagvöxturinn hafi verið í upphafi þessa árs. Þeir eru enn að spá aftur í tímann, að geta sér til um það hvernig hagvaxtartölur litu út fyrir fyrsta ársfjórðung. Það er ekki endilega við því að búast að þetta verði nákvæmlega eins og sagt er í þjóðhagsspám.

Það sem mér finnst samt skipta máli í þessu sambandi er hversu einstök staðan er. Á þessu hagvaxtarskeiði höfum við verið með viðskiptajöfnuð undanfarin ár. Við höfum bætt erlenda stöðu þjóðarbúsins þannig að hún er orðin betri en nokkru sinni fyrr í lýðveldissögunni. Við höfum rekið ríkissjóð með afgangi og greitt upp skuldir og við höfum búið þannig um hnútana að þegar við sjáum núna fram á hægari vöxt erum við í stöðu sem við ráðum við án þess að hefja mikla skuldasöfnun og viðskiptajöfnuður er enn til staðar, þannig að þetta er þessu leytinu til, í efnahagslegu samhengi, staða sem lýsir sterkara og traustara hagkerfi en við höfum nokkru sinni áður horft á.

Ég get kannski komið aðeins inn á útgjaldaþróunina og fjárfestingarnar í síðara svari.