150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel það alrangt sem hv. þingmaður segir hér, að skattalækkanir og aðrar kjarabætur sem við erum að mæla fyrir séu allar — og rúmlega það — teknar af fólki með öðrum gjaldabreytingum.

Ég ætla að nefna eitt dæmi. Bætur almannatrygginga munu um áramótin hækka í samræmi við væntar breytingar á viðmiðunartölum, þ.e. væntar breytingar á launum eða vísitölu neysluverðs eru viðmiðið þar, sú talan sem er hærri. Þetta gerist 1. janúar. Fyrir þá sem taka laun samkvæmt kjarasamningum hafa laun tiltölulega nýlega hækkað og munu hækka aftur á næsta ári. Ég ætla ekki að fara að tína til einhverjar einskiptisgreiðslur sem blandast inn í þá mynd, en hvort heldur sem er þá taka bætur og laun breytingum til hækkunar.

Gjöld sem taka breytingum munu hækka minna en vænt verðbólga. Af þessu leiðir að það verður til kaupmáttaraukning og þetta er áður en kemur að skattalækkunum. Sömuleiðis virðist vera einhver misskilningur hjá hv. þingmanni að lækkun persónuafsláttarins vegi upp skattalækkunina en reiknivélin sem við hv. þingmaður minntumst báðir á tekur að sjálfsögðu tillit til persónuafsláttarbreytinga. Persónuafsláttarbreytingarnar eru stilltar þannig af að þær tryggja að skattleysismörkin verði verðtryggð inn í framtíðina þannig að til að fá hina einu réttu niðurstöðu í þessar spurningar er hægt að spyrja spurninga í fjárlaganefnd, t.d. um væntan kaupmátt bóta almannatrygginga á næsta ári, hvaða breytingar verði á kaupmætti bóta eða kaupmætti launa á næsta ári. Þá tel ég alveg einsýnt að menn muni fá jákvæða niðurstöðu.