150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að við eigum að gera betur í upplýsingagjöf. Sums staðar finnst mér enn skorta mikið upp á. Við höfum gjarnan rætt um áhrif skattaþróunar yfir tíma á kjör fólks, bæði á vinnumarkaði og þeirra sem taka bætur hjá almannatryggingum, ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Til að gera betur í þessu efni átti ég frumkvæði að því á sínum tíma að við hófum eina stóra allsherjarúttekt á þróun kjara Íslendinga frá árinu 1991. Niðurstaðan birtist okkur á tekjusögunni.is. Tekjusagan.is er einstakur upplýsingavefur, a.m.k. á Evrópuvísu, ef ekki á heimsvísu, þar sem við höfum rauntölur um lífskjaraþróun Íslendinga aftur til ársins 1991. Við getum brotið upp eftir tekjutíundum hópa og skipt eftir aldursbilum, við getum skoðað landsbyggð eða höfuðborg. Við getum sömuleiðis skoðað eftir kynjum. Við getum skoðað þá sem eiga fasteign sérstaklega og hvernig kjör þeirra hafa þróast eða þá sem eru á leigumarkaði. Við getum velt fyrir okkur stöðu þeirra sem eru einir eða þeirra sem eru í sambúð. Niðurstaðan er út af fyrir sig mjög ánægjuleg í tekjusögunni hvað það snertir að allar tekjutíundir hafa bætt kjör sín.

Varðandi bótaflokkana sem við höfum aðeins verið að ræða er tvennt mjög áberandi, annars vegar hafa bætur almannatrygginga sem hlutfall af framfærslu fólks verið að vaxa, þ.e. bótaþátturinn hefur vaxið mjög ört á undanförnum árum, það hefur m.a. tryggt að eldri borgarar hafa notið hraðari lífskjarasóknar á undanförnum árum en aðrir hópar. Svo er hitt mjög áberandi, hversu margir koma með mun betri lífeyrisréttindi en áður var inn á eftirlaunaaldur. Við eigum að halda svona vinnu áfram og ég tek undir með hv. þingmanni að fólk á að skilja hver réttindi þess eru. Að öðru leyti sýnist mér við vera komin að lokum dags og lokum umræðunnar og ég þakka aftur fyrir hana.