150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

málefni lögreglunnar.

[15:15]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Lögreglustarfið er kannski það starf sem þarf mest á því að halda að traust ríki á þeim sem því gegna og að almenningur hafi á tilfinningunni að starfað sé af heilindum og heiðarleika. Það er óhætt að segja að margt mjög athyglisvert hafi komið fram í viðtali Morgunblaðsins við ríkislögreglustjórann Harald Johannessen nú um helgina þar sem hann bregst við gagnrýni sem komið hefur fram á störf hans og svarar fullum hálsi. Hann segir þar um sérsveitina, sem undir hann heyrir, hvort ekki muni tímabært að fá fagaðila til að gera athugun á þeim menningarkima sem sérsveitin er. Það hljómar satt að segja dálítið ískyggilega frá yfirmanni þeirrar deildar sem fer með vopn. Spilling þrífst innan lögreglunnar, að sögn ríkislögreglustjórans, og hann lætur í það skína að hann muni segja allt af létta þyki honum ástæða til og ekki sé aðeins um að ræða hefðbundna togstreitu milli deilda um fé og mannafla. Þetta tengir hann við agavandamál sem hann hafi þurft að taka á og þannig sé gagnrýni á hann sjálfan aðallega tilkomin.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þær yfirlýsingar ríkislögreglustjórans kalli ekki á sérstakar aðgerðir aðrar en þær sem þegar hefur verið ráðist í., þ.e. úttekt ríkisendurskoðanda á embættinu, og þá einhverjar sérstakar aðgerðir til að rannsaka lögregluna. Getur verið að lögregluembættin í landinu séu spillingarbæli? Þarf þá ekki að bregðast við því? Eigi þessi orð ekki við rök að styðjast, þarf þá ekki að bregðast við því þegar ríkislögreglustjóri fer með staðlausar ásakanir um undirmenn og samstarfsmenn sína í lögreglunni?