150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

sjúkratryggingar.

8. mál
[18:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og frummælanda, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrir frábært frumvarp. Þingflokkur Flokks fólksins styður það heils hugar. Það er engin spurning að aukið aðgengi að sálfræðimeðferð og klínískri viðtalsmeðferð er hið besta mál. Ég var að ræða við heilbrigðisráðherra í dag í sambandi við sjúkraþjálfun. Þar var, eins og hv. þingmaður talaði um, opnað fyrir þá sem höfðu ekki áður aðgang að sjúkraþjálfun og það virðist hafa komið þessari ríkisstjórn eitthvað á óvart að það væri fólk þarna úti sem gæti komist inn. Ég hef því miður áhyggjur af því að það eigi eftir að koma eitthvert bakslag, sem ég vona samt að verði ekki.

Þetta frumvarp er að því leyti til líkt að þar er sjúkraþjálfun gagnvart huga og sál og ekki veitir af. Við verðum líka að horfa á það að hafa þjónustuna ókeypis þannig að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í kostnaðinum. Það opnar margar dyr vegna þess að þannig verður örugglega víðari og almennari aðgangur að því kerfi. Og þá segi ég, vegna þess að við erum í kerfi sem er svolítið skrýtið, að ég tók eftir því þegar ég varð fyrir áföllum í lífinu hversu auðveld lausn það var og einhvern veginn fyrsta hugsunin að redda öllu með lyfjum. Það er stórhættulegt. Við erum búin að átta okkur á því og verðum að átta okkur á því enn þá betur að við vitum ekki hvaða áhrif gegndarlaus lyfjataka hefur á einstaklinga, á ungt fólk. Við vitum að sumir eru viðkvæmari fyrir lyfjatöku en aðrir og geta orðið háðir lyfjunum sem verið er að gefa. Þess vegna segi ég: Því víðar sem við opnum á sálfræðimeðferð og viðtalsmeðferð, þeim mun fleiri hugmyndir koma til og þá sérstaklega, myndi ég segja, nýjar hugmyndir sem við vitum að eru komnar í gang þar sem er verið að hjálpa fólki án þess að nota lyf. Þar segi ég fyrir mitt leyti að bara sá ávinningur er gígantískur, alveg frábær, að ég tali ekki um að heilbrigðisyfirvöld ættu að vera ánægð með það því að þá sparast kostnaður, lyfjakostnaðurinn, sem er líka gígantískur. Eins og við vitum erum mörg lyf rándýr.

Þess vegna styð ég þetta frumvarp heils hugar og mun fylgja því eftir inn í velferðarnefnd þar sem ég á sæti. Ég tel þetta hið besta mál og skil ekki einu sinni hvers vegna það er ekki sjálfsagður hlutur í dag. Þetta getur ekki verið annað en eðlilegur hluti af heilbrigðisþjónustu, sérstaklega ef við horfum á þá sem eru á lífeyrislaunum frá Tryggingastofnun ríkisins, berstrípuðum. Hvernig á það fólk að hafa efni á slíkri þjónustu? Ég veit að það hefur ekkert efni á henni en það þarf á henni að halda vegna þess að það eitt að þurfa að lifa í því kerfi er ávísun á alvarlegt þunglyndi, vegna þess að kerfið er mannskemmandi. Það eitt að eiga alla vega kost á því að leita sér hjálpar án þess að bera kostnað myndi bæta ástandið eitthvað. En auðvitað er aðalatriðið að sjá til þess að allir geti nýtt sér svona þjónustu, óháð fjárhag, og það er það sem ég styð heils hugar og skiptir langmestu máli.