150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

sjúkratryggingar.

8. mál
[18:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns er þetta mál flutt í annað sinn og var framsagan þá í febrúarmánuði. Ég gerði á þeim tíma athugasemdir við frumvarpið vegna þess að þá sneri það einungis að sálfræðimeðferð og ég fagna þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar á því. Þetta eru mikilvægar breytingar. Eins og segir í greinargerðinni: „Markmiðið með frumvarpi þessu er að almenn sálfræðiþjónusta og önnur klínísk viðtalsúrræði falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands.“ Ég lagði einmitt áherslu á þetta í málflutningi mínum í vetur og fagna því að þessu hefur verið breytt og styð heils hugar þetta frumvarp eins og það kemur fram.

Ég vil koma aðeins inn á eitt í því sambandi, þ.e. að hér á landi hefur skapast sú málvenja að nefna alla samtalsmeðferð einu nafni sálfræðiþjónustu. Samtalsmeðferð er ekki eingöngu byggð á sálfræðiþjónustu, þar koma ýmsar aðrar fagstéttir ekki síður að máli. Hér á landi fá ákveðnar fagstéttir opinbera viðurkenningu frá landlæknisembættinu, svokölluð starfsleyfi, til að sinna samtalsmeðferð og þeirra á meðal eru félagsráðgjafar og sálfræðingar. Báðar þær fagstéttir eiga að baki fimm ára háskólanám og þar af eru tvö á meistaraprófstigi. Það er því, herra forseti, villandi að kalla alla slíka þjónustu sálfræðiþjónustu. Það væri eins og ef við myndum kalla alla læknastéttina öldrunarlækna.

En í frumvarpinu sem hv. þingmaður talar fyrir má segja að það kristallist ákveðin málvenja á mjög skýran hátt. Það væri eðlilegra að mínu viti að orðalagið væri á þann veg að ræða greiðsluþátttöku ríkisins í samtalsmeðferð sem veitt er af viðurkenndum fagaðilum með starfsréttindi frá landlækni. Þetta er bara mín persónulega skoðun en ég held að þetta væri svolítið skýrara ef það væri sett fram þannig.

Innan háskólasamfélagsins velkist enginn í vafa um að samtalsmeðferð skilar verulegum árangri, enda hafa rannsóknir sýnt að slík meðferð eykur líkur á bættri líkamlegri og andlegri heilsu og jákvæðum samskiptum. Þetta á bæði við í tilfellum fullorðinna og barna og sést bæði á heimilum og vinnustöðum. Þá hafa rannsóknir sýnt að samtalsmeðferð getur dregið verulega úr lyfjakostnaði einstaklinga og kemur þá bæði að fjárhag einstaklinganna sjálfra og hins opinbera. Það voru mjög athyglisverðar tölur sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni um það mikla magn sem Íslendingar neyta af lyfjum, t.d. svefnlyfjum. Við erum töluvert yfir meðallagi og vissulega er það áhyggjuefni. En alþjóðlega heilbrigðisstofnunin hefur staðfest að fjárhagslegir og félagslegir þættir ráði mestu um heilsufar þjóðfélagshópa og einstaklinga. Samtalsmeðferð sem sjálfstætt starfandi sérfræðingar veita, hvort sem það eru sálfræðingar, félagsfræðingar eða frá öðrum fagstéttum, fjölskylduráðgjafar o.s.frv., en landlæknir viðurkennir, ætti því að vera aðgengileg öllum sem vilja nýta sér þá þjónustu. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir rökstuddi það mjög vel í máli sínu og gott að það kom fram.

Þetta ætti að vera óháð fjárhagslegum aðstæðum hvers og eins. Ég held að það sé alveg ljóst og ég held að við séum öll sammála um það og mikilvægi þess. Samtalsmeðferð á því að vera eðlilegur þáttur í heilbrigðisþjónustu á Íslandi og aðgengileg fyrir alla hópa samfélagsins.

Ég hef átt nokkur samtöl við sjálfstætt starfandi sérfræðinga í samtalsmeðferð í tengslum við þetta mál og þar kemur fram að þörfin fyrir slíka þjónustu er mjög mikil. Við þekkjum að persónulegir erfiðleikar spyrja hvorki um stétt né stöðu og kvíðatengdir sjúkdómar herja jafnt á fullorðna, ungmenni sem og börn.

Herra forseti. Það er rétt í þessari umræðu að koma aðeins að lokum inn á fjölskylduráðgjöfina vegna þess að skilnaðartíðni hér á landi er u.þ.b. 37%, að því er mér skilst. Þá er aðeins verið að ræða um skráð sambönd. Þau halda betur en óskráðu samböndin, hvernig sem á því stendur, en almennt telja sérfræðingar að í raun sé skilnaðartíðni 50%, sem er náttúrlega gríðarlega há tala. Rannsóknir í Bandaríkjunum og í Evrópu gefa vísbendingar um að skilnaðarhlutfallið geti verið allt að 65%, þannig að vandinn er mikill. Þess vegna er mjög ánægjulegt að sjá þetta komið inn í frumvarpið. Ég held t.d. persónulega að fjölskylduráðgjafar séu ákaflega mikilvæg stétt í þessu samfélagi og þær tölur sem ég nefndi sýna hversu nauðsynleg sú stétt er.

Að lokum fagna ég frumvarpinu og sérstaklega því að komin sé breyting svo að það taki til annarra klínískra meðferða. Mín persónulega skoðun er að orðið samtalsmeðferð væri skýrara orðalag. Ég hv. þingmanni fyrir framsöguna.