150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég ætla að eiga orðastað við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson og vil byrja á því að þakka honum kærlega fyrir að verða við þeirri ósk minni. Hv. þingmaður ræddi um það í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra hve skynsemishyggja væri mikilvæg, ekki síst þegar kæmi að stjórnmálum, hve mikilvægt væri að við byggðum afstöðu okkar á vísindum. Nú hefur töluvert verið rætt um hlýnun jarðar, loftslagsvá, eða hvað við köllum það. Ansi hreint margir eru sammála í þeim efnum. Mig langar að nefna Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðaveðurfræðistofnunina, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, OECD, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna, Alþjóðabankann, Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, efnahags- og félagsmálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, stofnun ESB um veðurspár, Umhverfisstofnun Evrópusambandsins, Asíska fjárfestingarbankann, Englandsbanka, milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar, Veðurstofu Íslands. Þetta er engan veginn tæmandi listi en allar þessar stofnanir og vísindafólk hafa varað við hlýnun jarðar af mannavöldum og hvatt til þess að við bregðumst við.

Mig langar að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Telur hv. þingmaður að hraðar loftslagsbreytingar af mannavöldum séu staðreynd eða er hann ósammála öllu ofangreindu vísindafólk? Hvað telur hv. þingmaður að eigi að gera til að sporna við umræddum loftslagsbreytingum, ef hann er þá sammála því að þær séu til staðar?