150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Líkt og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir ætla ég að víkja nokkrum orðum að skýrslu um mælikvarða um hagsæld og lífsgæði sem kynnt var í gær en við þingmaðurinn áttum því láni að fagna að sitja bæði í starfshópnum sem vann þá vinnu. Það er kannski fyrst að segja að þetta er löngu tímabær vinna og það sést á viðbrögðunum sem skýrslan fær þar sem fólk á öllu litrófi stjórnmálanna er sammála um að hagvöxtur og landsframleiðsla séu gríðarlega ófullkomin mælitæki til að bera rekstur hins opinbera upp við, ef við ætlum að meta gæði hans.

Hér er genginn í salinn hæstv. fjármálaráðherra sem undirstrikaði þessa viðhorfsbreytingu í samfélaginu á ráðstefnu í gær þar sem þessir mælikvarðar voru kynntir.

Það er nefnilega þannig að þó að hagvöxtur geti verið að aukast í samfélaginu, þó að landsframleiðsla geti verið í hæstu hæðum, getur t.d. þeim sem neita sér um læknisþjónustu verið að fjölga, ójöfnuður getur verið að aukast í samfélaginu, löng vinnuvika getur hrjáð fjölda fólks. Þessir mælikvarðar eru meðal þeirra sem við leggjum til að verði í mælaborði sem stefnumörkun stjórnvalda byggi miklu frekar á til að sýna að samfélagið sé að þokast í rétta átt hvað varðar innvolsið í okkur öllum.

Ég hvet þingmenn til að kynna sér þetta en langar að nefna tvennt sem sló mig dálítið við þessa vinnu. Í fyrsta lagi að það hefur skort upplýsingar sem eru reglulega uppfærðar á tveimur grundvallarsviðum, annars vegar varðandi félagsauð og samspil vinnu og einkalífs og hins vegar varðandi umhverfismál. Þar eigum við ekki nógu tíðar mælingar til að setja inn í svona mælaborð eins og ég myndi vilja sjá. Þetta er eitthvað sem er verið að vinna að og verður unnið að í framhaldinu og er mjög mikilvægt. Í öðru lagi er það sem okkur tókst að gera í þessari skýrslu en það er að tengja neyslu ekki bara hinum meinta jákvæða hagvexti heldur líka umhverfismálum, (Forseti hringir.) vegna þess að það er einfaldlega svo að óheft hagvaxtarhyggja er bundin órofa böndum við hamfarahlýnunina sem við stöndum nú frammi fyrir. (Forseti hringir.) Ef við ætlum að ná tökum á hamfarahlýnun þurfum við að gera meira af þessu.