150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held að hv. þingmaður hljóti að hafa misskilið orð mín þegar hún segir að þetta sé úr lausu lofti gripið. Ég held einmitt að það sé kjarni málsins í þessari tilteknu skattheimtu, þ.e. urðunargjaldinu. Það hefur verið gagnrýnt af Samtökum iðnaðarins, eins og ég rakti, sem þekkja vel til í þessum efnum, að aðstaðan sem boðin er fyrirtækjum og jafnvel einstaklingum sé ekki fullnægjandi. Það er kannski lágmarkskrafa að þegar þessi skattur er lagður á sé öll aðstaða fyrir hendi og búið sé að byggja hana upp þannig að þessir hlutir geti verið í lagi.

Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að það er ekki heppilegt að urða. Ég hefði viljað sjá að það yrði aflagt. En þessi skattur er lagður á öll heimili í landinu. Hann verður, þegar innleiðingu er lokið, um 12.000 kr. og það er svolítill peningur. Á Suðurnesjum er engin urðun, þar er allt sorp brennt — eiga heimilin á Suðurnesjum að borga þennan skatt? Því hefur ekki verið svarað. Það er því ýmislegt sem þarf að fara yfir í þessu máli, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi. Það er gott að hann kom inn á að þetta verði rætt í nefndinni og við verðum að fara yfir þetta; þetta eru háar upphæðir, þetta eru 2,5 milljarðar, og það er sjálfsögð og réttmæt krafa skattborgaranna að farið sé í saumana á þessu máli.

Mér finnst þessi skattheimta, þessi nýi skattur, sýna að farið sé af stað án þess að búið sé að vinna nægilega grunnvinnuna, sem kemur greinilega fram í gagnrýni Samtaka iðnaðarins.