150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:54]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um það sem er kannski ekki í þessu frumvarpi og það eru breytingar sem lúta að fjármagnstekjuskattinum. Ég velti fyrir mér hvort ekki hafi komið til greina að gera breytingar þar. Eins og staðan er í dag er Ísland með lægsta fjármagnstekjuskatt af öllum Norðurlöndunum og í raun er samkvæmt fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir lægra hlutfalli fjármagnstekjuskatts, sem hlutfalli af landsframleiðslu milli ára, og sömuleiðis í krónutölu. Það hafa verið hugmyndir í fjármálaráðuneytinu um að verja fjármagnseigendur gegn verðbólgu, ef svo má segja, með því að innleiða skattlagningu á raunávöxtun í staðinn fyrir nafnávöxtun þegar kemur að fjármagnstekjum. Það er ekki í þessu frumvarpi og ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé fallinn frá hugmyndum um að fara þá leið sem að mínu mati er óeðlileg og flókin og væri mjög sérkennilegt að við værum að taka fjármagnseigendur sérstaklega út úr menginu hvað þetta varðar, sérstaklega í ljósi þess að verðbólgan mun án efa fara upp á við.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki komi til greina að hækka einfaldlega frítekjumark þegar kemur að fjármagnstekjuskatti.