150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að segja að það er athyglisvert að skoða vefinn tekjusagan.is. Þar er hægt að skoða tekjuþróun landsmanna frá 1991 með og án fjármagnstekjuskatts. Hv. þingmaður segir að þetta fólk geti betur borið skattlagningu og þolað hærri skattlagningu o.s.frv. Ég held að það sé umræða sem þurfi að fara aðeins dýpra í og spyrja um hlutverk fjármagnsins. Hvar er fjármagnið að vinna? Hverjir eru hvatarnir til þess að láta fjármagn skapa verðmæti úti í samfélaginu? Hvenær hafa skattar hækkað svo mjög að fólk flýr umhverfið? Þarna þurfa menn aðeins að fara að ræða um það hvort fjármagn í höndum einstaklinga hafi einhvern tilgang, að einhver ávinningur sé af því yfir höfuð að láta það vinna í þágu þess að skapa störf og verðmæti í landinu. Frítekjumarkið hefur verið á vaxtatekjur, ekki á arðinum, en ég er með kastljósið á (Forseti hringir.) raunávöxtunina, að menn eigi ekki að vera með skattlagningu sem tekur af mönnum raunávöxtun.