150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var svo sem ekki að leggja til að við tækjum ekki gjald af sjávarútveginum í landinu. Ég var bara að gera athugasemd við það að það væri gert lítið úr því að við værum að taka 10 milljarða. Það er mjög há fjárhæð. Það er sérstök skattlagning sem aðrar atvinnugreinar þurfa ekki að standa undir og ef við lítum í kringum okkur er svo langt í frá sjálfsagt að þær aðstæður séu til staðar í sjávarútvegi almennt að hægt sé að gera kröfu um slíka sértæka skattlagningu. Eins og ég nefndi eru dæmi um að menn niðurgreiði atvinnustarfsemi eins og sjávarútvegurinn er. En það er rétt að þeir sem fá forgangsrétt eða aðgang að takmarkaðri auðlind geta komist í aðstöðu til að hafa af því mikinn ávinning og það er rétt að skattleggja það upp að einhverju marki. Það verða samt sem áður að vera áfram til staðar hvatar til að fjárfesta, skapa meiri verðmæti. Ég held að það muni á endanum skila sér í meiri verðmætum fyrir þjóðarbúið í heild að stilla sköttum í hóf og sértækri skattlagningu líka.

Ef við horfum til baka sjáum við að arðsemin í einstökum veiðum hefur verið mjög sveiflukennd. Í uppsjávarveiðinni t.d. og sömuleiðis í bolfisknum hefur afkoman verið mjög breytileg frá ári til árs á undanförnum árum. Allt tal um auðlindarentu finnst mér hafa breyst mjög mikið frá því að við ólum með okkur draum um að við gætum gert auðlindarentuna að eins konar skattstofni. Með tímanum held ég að við höfum áttað okkur á því að þetta er fræðilegt hugtak sem er ónothæft sem skattandlag. Þó að hugmyndafræðilega sé það einhvers staðar þarna á bak við sem réttlæting fyrir því að leggja skattinn á hefur okkur reynst ómögulegt að festa fingur á nákvæmlega á því hvað forgangur að auðlindinni hafi skilað mikilli auðlindarentu til hvers og eins.