150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Það sem vekur kannski fyrst athygli við þá fyrirhuguðu skattkerfisbreytingu sem kemur fram í þessu frumvarpi er hugmyndafræðileg breyting hjá Sjálfstæðisflokknum sem hefur reglulega talað fyrir því að einfalda skattkerfið. Landsfundur hefur ályktað um það og formaður flokksins hefur auk þess talað fyrir því og ekki er langt síðan hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra nefndi að það væri ofgert að hafa þrjú skattkerfi og ætti frekar að horfa á persónuafsláttinn sem tæki til að ná frekari árangri. Ég er að mörgu leyti sammála hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þannig og þetta er svolítið athyglisvert í ljósi þess sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað og talað fyrir lengi. Hér er verið að flækja skattkerfið og ég kem inn á það á eftir.

Við í Miðflokknum fögnum að sjálfsögðu öllum skattalækkunum og það er verið að lækka skatta á lægstu tekjur sem er fagnaðarefni, því að ekki er um háar tekjur að ræða. Hins vegar er spurning um skynsamlegustu leiðirnar í því. Það sem þarf líka að koma fram í umræðunni er hvaða áhrif skattkerfisbreytingin kemur til með að hafa á launafólk í efri millistétt. Verður það raunin þegar upp er staðið, þegar launaseðlarnir birtast launafólki eftir breytingarnar, að sá hópur sjái aukna skattbyrði? Því þarf að svara og setja þarf fram einhvers konar dæmi, skilmerkileg dæmi sem sýna að það er ekki þannig, eins og haldið er fram, að 1% hækkun á efri millitekjur jafnist út á annan hátt. Það er eitthvað sem hefur ekki verið svarað nægilega vel að mínum dómi.

Ég hjó sérstaklega eftir einu sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði í ræðu áðan þegar hann ræddi um áhrif á samsköttun þrepa. Það var eiginlega mjög sérstakt mál sem þessi fjárlagafrumvarpsumræða hófst á, þ.e. misvísandi upplýsingar um hvort stæði til að draga úr samsköttun þrepa eða ekki. Við Miðflokksmenn röktum þetta í ræðu í kringum fjárlögin. Það segir í fjármálaáætlun og í fjárlagafrumvarpinu að draga eigi úr samsköttun og jafnvel fella hana niður og síðan kemur tilkynning frá fjármálaráðuneytinu um að svo verði ekki. Þetta eru allt mjög misvísandi upplýsingar sem eru óþægilegar. Fjármálaráðherra hefur að vissu leyti skýrt þetta en þó ekki nægilega að mínum dómi þegar hann segir að það muni hafa viss áhrif á samsköttun þrepa. Þetta þarf að skýra út. Slíkt er ekki hægt að setja fram án þess að menn geti sagt til um hvort einhverjir hópar í samfélaginu komi til með að koma illa út úr breytingunum. Það er nauðsynlegt að þetta komi fram.

Við í Miðflokknum höfum talað fyrir einfaldara skattkerfi, að hafa það sem eins einfalt og gagnsætt og skilvirkt og unnt er. Það er til þess fallið að byggja undir aukna verðmætasköpun hagkerfisins og í því felst minni kostnaður við umsýslu hjá hinu opinbera þegar kemur að skattamálum og minni áhrif á hvata innan hagkerfisins. Síðan er náttúrlega mikilvægt í því sambandi að einfaldara skattkerfi eykur gagnsæi. Það er mjög mikilvægt. Því einfaldara skattkerfi, þeim mun auðveldara er að eiga umræðu um áhrif skattkerfisins og hvernig byrðarnar dreifast á ólíka hópa. Lækkun skatta er eins og við þekkjum góður hvati fyrir stjórnvöld til að skoða af fullri alvöru leiðir til sparnaðar og ráðdeildar í ríkisrekstri og það er eitt af því sem Miðflokkurinn hefur talað fyrir, að mikilvægt sé að fara að draga úr þenslu báknsins. Það sætir nokkurri furðu hve Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið slakur í því í þessu ríkisstjórnarsamstarfi að draga úr ríkisbákninu. Flokkurinn hefur margsinnis talað fyrir nauðsyn þess að draga úr ríkisbákninu og flutt tillögur þess efnis og tillögur um að leggja niður stofnanir o.s.frv. en engin merki eru um það í ríkisstjórnarsamstarfinu og alveg augljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og hugmyndafræði hans í þeim efnum hefur orðið undir, beðið lægri hlut gagnvart hinum stjórnarflokkunum.

Það má segja að nokkru leyti að umræðan um skattamál á Íslandi sé svolítið föst í viðjum vanans, ef svo má að orði komast. Því miður koma fáar nýjar hugmyndir fram. Gleymum því ekki að það er styrkur lítils hagkerfis og lítils lands eins og Íslands að hafa stuttar boðleiðir í embættismannakerfinu. Þetta hefur gert að verkum að leiðirnar eru tiltölulega skilvirkar, sem er gott mál og gefur okkur færi á því að bjóða upp á einfalt og gott skattkerfi þar sem hlutföllin eru lág, reglur gegnsæjar og undanskot óveruleg. Þetta eru allt markmið sem við eigum að stefna að og auka þar með samkeppnishæfni okkar, líka gagnvart erlendum fjárfestum og útflutningsgreinum. En það verður að segjast eins og er að það gætir ákveðinnar tregðu oft og tíðum í umræðu um skattamál. Það er eins og það séu alltaf bara til tvær leiðir, þ.e. að auka tekjur ríkisins með því að hækka skatta eða auka ýmis gjöld, m.a. á atvinnulífið. Við þurfum að vera svolítið opnari og frjórri í hugsun hvað þetta varðar. Við eigum ekki að vera hrædd við að skoða t.d. flatan skatt á tekjur — er það eitthvað sem gæti komið okkur vel, óháð uppruna? — fremur en að vera með marga ólíka skatta á mismunandi tekjur. Þetta eru allt sjónarmið sem við eigum að skoða og vera opin fyrir að finna nýjar leiðir en ekki flækja skattkerfið eins og við gerum með þessum tillögum. Það hefði verið hægt að fara aðrar leiðir til að lækka skatta á lægstu tekjur. Við í Miðflokknum styðjum heils hugar að það sé gert en þetta er spurning um leiðirnar og að vera svolítið frjó og skapandi í hugsun um einfaldara og betra skattkerfi. Það vantar að mínum dómi svolitla uppfinningasemi hjá stjórnsýslunni við að finna leiðir, skoða nýjar leiðir til að jafna skattbyrðina á jákvæðan hátt en einfalda kerfið um leið. Dæmi sem má taka um hvernig verið er að flækja skattkerfið er þegar gistináttaskatturinn var settur á, um 100 kr. á gistinóttina í upphafi, sem var kannski lág upphæð en engu að síður fylgdi því verulegt skrifræði sem náttúrlega kostar líka peninga. Þetta eru hlutir sem verður að skoða þegar nýir skattar eru lagðir á og ber að fara varlega í þeim efnum að okkar mati. Við höfum reynslu af því að lækka tekjuskatt á fyrirtæki og það sýnir ótvírætt að ríkið getur einfaldað kerfið og lækkað skatta en um leið aukið tekjur sínar.

Þetta var innlegg í þessa umræðu, frú forseti, sem ég vildi koma að. Á Íslandi eigum við að stefna að því að einfalda skattkerfið. Við eigum að kynna okkur sem land sem býður upp á eitt skilvirkasta skattkerfi í heimi. Það myndi efla mjög forskot okkar og samkeppnishæfni. Hér er verið að fara leiðir sem eru gamaldags og til þess fallnar að flækja kerfið, eins og ég nefndi áðan. Nauðsynlegt er að nálgast þau málefni með opnum huga og að sjálfsögðu til þess að bæta ráðstöfunartekjur þeirra sem lægstu launin hafa.