150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

samráð um samgönguáætlun.

[11:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mér hefur verið nokkuð hugleikið samráðsleysi þessarar ríkisstjórnar varðandi samgöngumál höfuðborgarsvæðisins við minni hlutann á þingi og ágætt að hafa í huga í því samhengi að um helmingur þingmanna þessa svæðis kemur einmitt frá téðum minni hluta, sem enn fær lítið sem ekkert að vita um hvað standi til í stórhuga innviðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir nærri hálfum mánuði voru áform um verulega uppbyggingu kynnt fyrir sveitarfélögunum, og virtust sveitarfélögin telja það vera samkomulag um þessa uppbyggingu, samkomulag sem ekki hafði verið kynnt fyrir minni hluta og við gagnrýndum. Í morgun berast þær fréttir að lögð séu fram ný drög að samkomulagi, sem hafa reyndar ekki verið rædd við sveitarfélögin heldur virðist vera niðurstaða innbyrðissamninga meiri hlutans hér á þingi. Það er hið þverpólitíska samráð stjórnarmeirihlutans sem kýs enn og aftur að hafa ekki nokkurt samráð við minni hlutann á þinginu um þetta.

Ég velti auðvitað fyrir mér, af því að þetta virðist vera dálítið ruglingslegt í meðhöndlun þingmeirihlutans: Er þetta samkomulag eða drög að samkomulagi? Mun minni hlutinn hér á þingi hafa einhverja raunverulega aðkomu að þessu máli þegar samkomulag við sveitarfélögin liggur fyrir, ef það þá næst og ef stjórnarflokkarnir ná samkomulagi við sjálfa sig um þetta mál?

Mér þykir þetta æðimerkilegt samráðsleysi í ljósi mjög hátíðlegra yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar, sem koma m.a. fram í stjórnarsáttmála hennar, að um svona stór áform, risaframkvæmdir sem taka til margra ára, jafnvel áratuga, skuli einmitt haft víðtækt þverpólitískt samráð. Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra: Hvar er þetta samráð?