150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

samráð um samgönguáætlun.

[11:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra viðleitnina að boða til kynningarfundar en gagnrýni auðvitað um leið tímasetningu þess fundar sem hæstv. ráðherra mátti vera fullljóst að væri einmitt umræða í þingsal og var gagnrýnt hástöfum hér af minni hluta sem vildi vera viðstaddur þá umræðu. Ég hefði gjarnan viljað sitja þann samráðsfund en var í umræðu á sama tíma í þingsal og tel reyndar mjög óeðlilegt að verið sé að boða stóran hluta þings til kynningarfundar á þingfundartíma. Mér finnst grundvallaratriði að þingmenn eigi að geta sótt slíka fundi og sinnt störfum sínum á þingi sömuleiðis.

Um leið og ég lýsi ánægju minni með að loksins sé verið að leggja fram einhverjar hugmyndir að því hvernig tekið verði á miklum samgönguvanda á höfuðborgarsvæðinu og tryggt nægjanlegt fjármagn til þess hlýt ég að gagnrýna þá hugmynd sem hér er lagt upp með, að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi að greiða tvöfalt, í fyrsta lagi þau eldsneytisgjöld sem ætlað er að fjármagna framkvæmdir í samgöngukerfinu og að auki veggjöld sérstaklega sem ekki verða lögð á (Forseti hringir.) neins staðar annars staðar á landinu. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra: Er það réttur skilningur að það sé upplegg þessarar ríkisstjórnar að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi að borga tvöfalt fyrir samgöngubætur sínar?