150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[11:43]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að standa hér og mæla fyrir fyrsta forgangsmáli Flokks fólksins. Flokkur fólksins leggur fyrir þingið nú fyrir jól fimm forgangsmál sem eru ákveðinn velferðarpakki flokksins og sýnir glöggt áherslumál okkar hvað lýtur að velferð, að baráttunni gegn fátækt og baráttunni gegn skattlagningu á þá sömu fátækt.

Tillaga þessi til þingsályktunar er um 300.000 kr. lágmarksframfærslu almannatrygginga og með mér á tillögunni er Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins. Hún er um að Alþingi álykti að fela félags- og barnamálaráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp þess efnis að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi 300.000 kr. lágmarksframfærslu á mánuði, skatta- og skerðingarlaust. Frumvarp þess efnis verði lagt fyrir Alþingi fyrir lok yfirstandandi löggjafarþings.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Hér er lagt til að félags- og barnamálaráðherra undirbúi og leggi fram frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar og öðrum lögum, ef þess er þörf, sem tryggi viðunandi lágmarksframfærslu örorku- og ellilífeyrisþega. Lægstu mánaðarlegar greiðslur til lífeyrisþega, sem engar aðrar tekjur hafa, eru aðeins 212.000 kr. eftir skatt og 252.000 kr. ef viðkomandi hefur heimilisuppbót. Þeir sem búa við svo kröpp kjör eru fastir í fátæktargildru. Á undanförnum árum hefur framfærslukostnaður stóraukist, ekki síst húsnæðiskostnaður, en á sama tíma hafa greiðslur almannatryggingakerfisins ekki fylgt almennri launaþróun í landinu. Framfærsla öryrkja hefur skerst um 29% miðað við launaþróun á síðasta áratug. Þá hefur persónuafsláttur lækkað hlutfallslega með tilliti til verðlags- og launaþróunar. Áður fyrr voru skattleysismörk hærri en óskertur lífeyrir almannatrygginga. Nú eru skattleysismörk við 153.000 kr. í mánaðartekjur en grunnlífeyrir fyrir skatt er 310.800 kr. á mánuði. Skattleysismörk eru því töluvert lægri en grunnlífeyrir. Afleiðingarnar eru aukin skattbyrði þeirra lægst launuðu.

Almannatryggingakerfið á að tryggja þeim sem á þurfa að halda grundvallarmannréttindi, þ.e. fæði, klæði og húsnæði. Ríkisvaldið á ekki að dæma einstakling í ævilanga fátækt ef viðkomandi er svo ólánsamur að verða öryrki. Það er nauðsynlegt að hækka lágmarksframfærsluviðmið almannatrygginga svo að það taki utan um og verndi með viðhlítandi hætti þá sem verst standa og mest þurfa á hjálpinni að halda.

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar ber löggjafanum skylda til að tryggja öllum þeim sem á þurfa að halda aðstoð vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra aðstæðna. Þessi vernd sem stjórnarskráin veitir okkar minnstu bræðrum og systrum er ekki virt. Það er löngu orðið tímabært að fjármunum verði forgangsraðað í þágu þeirra sem mest þurfa á að halda. Því er lagt til að löggjafinn tryggi að lífeyrisþegar almannatrygginga hafi ráðstöfunartekjur sem nemi a.m.k. 300.000 kr. á mánuði, skatta- og skerðingarlaust.“

Að lokum vil ég vísa þessari þingsályktunartillögu til hv. velferðarnefndar.