150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

virðisaukaskattur.

10. mál
[13:43]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það vill svo til að ég sit í nefnd á vegum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem er að skoða og á að leggja fram tillögu nú á næstu vikum um skattalegt umhverfi þriðja geirans svokallaða. Meginmarkmiðið er að við skoðum allt skattalegt umhverfi, fjármagnstekjuskattinn, tekjuskattinn, virðisaukaskattinn, til að byggja undir þriðja geirann, hvetja atvinnulífið og hvetja einstaklinga til að leggja þessum aðilum lið og fá til þess eitthvert skattalegt hagræði. Vinnan er komin mjög langt og ég vonast til að hún eigi eftir að skila góðum ávexti. En það vill bara svo til að það er annað frumvarp sem ég hef lagt fram sem kemur kannski að góðgerðar- eða almannaheillafélögum sem eru undanþegin tekjuskatti en er verið að leggja á fjármagnstekjuskatt. Ég hef lagt til að fjármagnstekjuskattur af slíkum félögum sem eiga kannski einhverja smásjóði — það eru t.d. björgunarsveitir sem eru að safna fyrir björgunarskipi, liggja kannski með nokkrar milljónir í nokkur ár en eru skattlögð með fjármagnstekjuskatti og þetta er allt étið upp. Það gengur ekki. Ég vonast til þess að hv. þingmenn muni styðja framgang þess máls þegar ég fæ að mæla fyrir því en það hefur þegar verið lagt fram. En við erum sem sagt að stíga, held ég, mjög mikilvæg skref, vonandi á þessum þingvetri, þegar kemur að þriðja geiranum og skattalegu umhverfi hans og ég er ekki bara að tala um góðgerðarstarfsemi eða íþróttafélög, ekki bara um björgunarsveitir heldur líka listir og menningu, söfn o.s.frv. Það er allur þriðji geirinn sem er undir og þetta er eitthvert skemmtilegasta verkefni sem ég hef fengið og hef ég þó fengið að koma nálægt nokkrum skemmtilegum verkefnum — en fullt af leiðinlegum.