150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[14:31]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að það liggi skýrt fyrir, hafi ég skilið hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé rétt, að þegar flutningsmenn sömdu frumvarpið hafi þeir litið til þjóðaröryggis landsins og komist að þeirri niðurstöðu eftir greiningu að það væri ekkert í frumvarpinu sem gengi gegn þjóðaröryggi landsins, öryggi landsins, og það væri ekkert í frumvarpinu sem gengi gegn samþykktri stefnu í þjóðaröryggi, þjóðaröryggisstefnunni. Ekkert. Ég vil bara óska eftir því, frú forseti, að þingmaðurinn staðfesti þennan skilning minn, að þegar frumvarpið var samið hafi menn litið til þessara tveggja þátta, þjóðaröryggis landsins í almennum og víðum skilningi og hins vegar þeirrar stefnu sem allir þingmenn, sem greiddu atkvæði á annað borð, samþykktu í apríl 2016.