150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svar þingmannsins af því að það skýrði dálítið vel að texti tillögunnar sjálfrar er greinilega aðeins þrengri en ætlunin er. Þetta mætti laga í vinnunni fram undan til að skilaboðin til þeirra sem mögulega taka við því verkefni að semja frumvarp séu þau að við séum ekki bara að tala um ætluð brot, mögulega refsiverða háttsemi, heldur miklu víðara hlutverk.

Hér hafa nokkrir gert það að umtalsefni hvort æskilegt sé að setja á laggirnar nýja stofnun. Mig langar aðeins að spyrja út í það líka, ekki vegna þess að ég sé eitthvað á móti því að setja á laggirnar nýjar stofnanir, heldur velti því bara fyrir mér hvort þessum verkefnum væri jafnvel ágætlega fyrir komið hjá umboðsmanni Alþingis, sérstaklega eftir að hann er tekinn við eftirliti með pyndingum í samræmi við OPCAT. Getur verið (Forseti hringir.) ákveðin sérþekking að myndast hjá umboðsmanni sem væri jafnframt hægt að nýta í þetta eftirlit?