150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[15:59]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir ræðuna og fyrir að flytja þetta mál og fyrir að vekja þar með athygli á þeim vanda sem þunglyndi er meðal eldra fólks og koma umræðunni af stað. Það er afar mikilvægt. Eins og kannski margir vita hef ég einhverja reynslu af að starfa með eldra fólki og þeim sem þjást af þessum vanda og ég get alveg vitnað um það að hann er ærinn.

Það sem ég hef hins vegar velt fyrir mér, og mig langar aðeins að fá vangaveltur þingmannsins um, í sambandi við tillöguna er hvort flötur væri á því að hafa hópinn sem á að vinna þetta aðeins minni og beina því kannski bara strax í þann farveg að það sem hann skili af sér verði nokkurs konar aðgerðaáætlun. Margt af því sem er brýnast í þessu eru upplýsingar sem liggja mikið fyrir. Við þurfum kannski meira að bregðast við þeim upplýsingum sem liggja fyrir, eins og hv. þingmaður kom inn á, til að mynda sjálfsvígum og sjálfsvígshættu.

Mig langar aðeins að heyra vangaveltur þingmannsins um þetta, sérstaklega í ljósi þess að nýverið skipaði hæstv. heilbrigðisráðherra eins manns nefnd í málefnum heilabilaðra. Þar er valinkunnur sérfræðingur að skila af sér greinargerð og skýrslu sem á einmitt að vera andlag ráðuneytisins til þess að bregðast við.