150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[16:12]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka flutningsmanni þingsályktunartillögunnar fyrir að leggja hana fram því að hér tel ég vera um afar brýnt mál að ræða. Í greinargerðinni kemur fram að 12% eldri borgara sýna einkenni þunglyndis, sem mun vera helmingi algengara en hjá öðrum aldurshópum. Það er alls ekki boðlegt. Fyrirséð er að öldruðum mun fjölga hratt hér á landi á næstu árum og áratugum og því verðum við að búa okkur undir að taka miklu betur á þeim vanda sem um ræðir sem allra fyrst og leita allra leiða til að vinna á móti þunglyndi meðal eldra fólks.

Samfélagið hefur breyst verulega á síðustu áratugum. Á fyrri hluta síðustu aldar breyttist íslenskt samfélag mjög skarpt og hratt úr því að vera sveitasamfélag yfir í borgarsamfélag sem leiddi af sér ýmsar aðrar breytingar, eins og t.d. að stuðningur stórfjölskyldunnar við eldra fólk minnkaði. Áður fyrr var kannski algengt að eldra fólkið byggi hjá yngra fólkinu, jafnvel meðal þeirra yngstu, barnanna. Fleiri breytingar hafa orðið, t.d. eru fjölskyldur minni, fólk eignast færri börn í dag en fyrir áratugum og einnig lifir fólk lengur. Síðast en ekki síst er lengra á milli kynslóða. Fólk eignast börn miklu síðar á ævinni en áður var.

Þegar ég var að alast upp, herra forseti, átti ég nokkrar langömmur og langafa. Ég held að minna sé um það í dag að fólk geti státað af slíku á unglingsárum sínum, í besta falli á það kannski afa og ömmur eða jafnvel ekki. Það er ein ástæðan líka. Þó að við höfum sem samfélag reynt að koma til móts við þessar breytingar með tómstundastarfi eldri borgara, t.d. með spilakvöldum, gönguklúbbum o.s.frv., njóta ekki allir þessa. Tómstundastarf er orðið mjög fjölbreytt, eins og allir þekkja, og hefur vaxið mikið síðustu árin. Auðvitað eru ekki allir í stakk búnir til að njóta þess sökum heilsubrests og búsetu og ýmissa annarra hluta. Við erum að tala um hóp eldri borgara sem verður þarna eitthvað út undan og glímir við það, en flutningsmaður vill taka á því. Ég tek undir að taka þarf á þunglyndi meðal eldri borgara, sem er mjög brýnt málefni.

Þunglyndi er ekki bara kostnaðarsamur sjúkdómur þegar mælt er í krónum og aurum, þar sem unnt er að tala um lyfjakostnað, skerta starfsgetu og slíkt, heldur veldur hann fyrst og fremst verri lífsgæðum þeirra sem við hann glíma.

Herra forseti. Það er ákveðin skömm fólgin í því að þurfa að viðurkenna að allt of stór hluti eldra fólks lifir í einangrun og finnur til einmanaleika, fólks sem lagði grunninn að því að við lifum í dag í velferðarþjóðfélagi, sem okkur verður svo tíðrætt um. En við horfum á sama tíma upp á þær staðreyndir sem koma fram í þessu máli, þ.e. algengi þunglyndis meðal eldri borgara. Sjálfsvígum eldri borgara fjölgar og grunur er um að einnig sé aukinn fjöldi sjálfsvígstilrauna. Í því er fólgin ákveðin skömm að þurfa að viðurkenna það hér í ræðustól Alþingis, en við sinnum ekki gamla fólkinu betur en raun ber vitni.

Ég fagna því öllum aðgerðum sem geta orðið til þess að bæta þar úr. Hér er lagt til að stofnuð verði níu manna nefnd til að fara ofan í saumana á því til hvaða ráðstafana sé unnt að grípa og í leiðinni að kanna tíðni sjálfsvíga og tilrauna til þess meðal eldri borgara. Ég fagna því.

Hér eru engin ný sannindi á ferð. Heilbrigðiskerfið hlýtur að þekkja þetta vandamál og hafa hugsanlega einhver ráð uppi í erminni. Hver er þá skýringin á ástandinu? Fer féð ekki í réttu hlutina? Leggjum við frekar áherslu á umbúðir en innihald? Getur verið að hluti af skýringunni sé sú staðreynd að eldra fólk sem dettur út af vinnumarkaði á alls ekki auðvelda leið þangað aftur? Það sýna tölur um langtímaatvinnuleysi meðal þeirra sem eldri eru á vinnumarkaði. Má leita skýringa í skattkerfinu, skerðingunum? Erum við að koma í veg fyrir að sá hluti eldri borgara sem vill vinna og getur unnið fari út á vinnumarkaðinn aftur? Erum við að koma í veg fyrir það með skattkerfinu? Ég tel að þetta þurfi líka að skoða. Virðum við ekki eldra fólk nægilega og framlag þess til samfélagsins? Er dýrkun okkar á ungu fólki komin út í öfgar? Við sinnum ekki gamla fólkinu og fyrir það eigum við að skammast okkar. Við þurfum að lagfæra það.