150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[16:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn sem hafa komið hingað upp fagna þessu máli. Ég get ekki sagt að ég sé sálfræðingur eða geðlæknir og því get ég ekki veitt neina leiðsögn um hvernig beri að vinna bug á þunglyndi annarra. Hins vegar er þetta sjúkdómur sem ég þekki ansi vel og mér finnst mikilvægt að við höfum í huga, þegar við ætlum að takast á við svona mál, hvers eðlis vandinn er. Ég vil alla vega meina að þunglyndi sé með misskildari greiningum sem fólk fær. Önnur mjög misskilin greining er fíkn. Fólki hættir til að hugsa með sér að þunglyndi felist einungis í því að fólki líði illa, en það er ekki endilega sjálfkrafa þunglyndi. Að líða illa getur verið eðlilegt, t.d. sökum þess að eitthvað slæmt hefur komið fyrir mann. Hvað kallar maður það þegar það gengur vel, maður er með góðar tekjur og allt er í góðu í félagslífinu, samband við fjölskyldu og vini er gott, fjárhagsleg staða góð o.s.frv. en samt líður manni alltaf eins og heimsendir sé í nánd? Það er eitt skýrasta einkenni einhvers konar þunglyndis.

Síðan eru til mismunandi stig þunglyndis og ýmsir fleiri kvillar geta fylgt með og flækt málin. Eins og ég segi þarf einhvern sem er með menntun í þeirri greiningu til að greina hvert tilvik fyrir sig, enda eru þau mörg, flókin og margslungin. Að því sögðu eru einstaklingar sem eru veikir fyrir þunglyndi að sjálfsögðu veikari fyrir aðstæðum sem valda þeim vanlíðan. Þessu var vel lýst í kvikmynd sem ég sá einhvern tímann. Því var lýst í réttarsal að svokallað heilbrigt fólk eða venjulegt fólk væri með svona flata plötu og þegar eitthvað slæmt gerðist ýttist það sem væri ofan á plötunni aðeins í þessa átt og þegar eitthvað gott gerðist færi það aðeins í hina áttina en hjá þeim sem þjáðust af þunglyndi hallaði platan aðeins. Það þyrfti aðeins minna til að fólki liði illa og aðeins meira til að því liði vel. Það væri alltaf í einhvers konar tilfinningalegri skuld við umhverfi sitt. Það finnst mér ansi góð lýsing á aðstæðum þunglyndra. Þess vegna verður líka að vara við þeirri hugmynd að til þess að tækla þunglyndi sé nóg að laga örlítið þau sýnilegu vandamál sem eru til staðar. Það er ekki endilega nóg. Rót þunglyndisins er ekki endilega sú að einhverjar slæmar aðstæður séu til staðar, svo sem fjárhagsáhyggjur, söknuður vegna missis maka eða eitthvað því um líkt. Allt slíkt gerir hlutina verri en það er ekki víst að það nægi að kljást við þau tilteknu vandamál. Þunglyndi er þannig sjúkdómur að hann er aðeins flóknari en það. Hann er ekki einfaldlega endurspeglun þess að allt sé glatað. Þess vegna getur fólk verið þunglynt þótt ekki sé hægt að festa fingur á neinum raunverulegum og sýnilegum vandamálum. Það er svolítið mikilvægt að hafa þetta í huga.

Aftur á móti, þegar kemur að aðstæðum aldraðra, er ýmislegt sem breytir þeim aðstæðum og getur vissulega valdið því að fólki líði einfaldlega rosalega illa án þess að endilega sé um klínískt þunglyndi að ræða. Þá ber okkur auðvitað skylda til þess að laga þau vandamál líka, án þess að kenna þau endilega við þunglyndi. En sömuleiðis, eins og kemur fram í greinargerð og ég tel hárrétt, eru aðstæður aldraðra öðruvísi. Augljóslega er meira um missi maka, vina, fólks sem maður þekkir. Þegar við eldumst þurfa þau okkar sem eru svo heppin að verða gömul því miður að venjast því að fólk falli frá í meira mæli en þegar við erum ung. Væntanlega er meira um óvirkni, meiri einmanaleiki, verkefnaleysi og því um líkt, jafnvel missir sjálfstæðis og fjárhagsáhyggjur, eins og farið er út í í greinargerð. Allt þetta hefur mikil áhrif og gerir þennan hóp sérlega sérstæðan þegar kemur að þunglyndi.

En mér finnst líka að við verðum að hafa í huga að við greiningu á þunglyndi þessa hóps þarf að gera greinarmun annars vegar á þunglyndi í klínískum skilningi, þ.e. þunglyndi sem getur herjað á fólk sem glímir ekki endilega við mörg, mikil og sýnileg vandamál, eða alla vega ekki í nógu miklum mæli til þess að útskýra vanlíðan, og hins vegar vanlíðan sem er komin til af því að aðstæður eru einfaldlega bölvanlegar. Nokkrir þingmenn sem á undan mér töluðu hafa svolítið farið út í þessar bölvanlegu aðstæður, enda förum við, vil ég meina, hvergi nærri nógu vel með eldra fólk. Það er oft skilið út undan, ekki bara í kerfum heldur líka í umræðunni. Ég þekki það bara af því að hafa verið ungur — og vera enn ungur að áliti margra — að þetta er nokkuð sem maður hugsar ekki um fyrr en á hólminn er komið. Þá er það bara aðeins of seint til þess að gera það sem hefði verið hægt að gera fyrr til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Ég hygg að það sé landlægt. Það held ég að einkenni ekki bara hugsunarleysi fólks þegar það er ungt gagnvart því hvernig það ætlar að hafa hlutina í framtíðinni, einfalda hluti eins og að leggja fyrir eða borga niður skuldir eða eitthvað því um líkt, heldur líka hér á löggjafarsamkundunni og hjá framkvæmdarvaldinu. Það er litið á aldraða sem ákveðna afgangsstærð í samfélaginu. Ekki bara er það siðferðislega rangt heldur er þetta ákveðin áskorun umfram það sem áður hefur verið vegna þess að öldruðum mun fjölga svo mikið. Það er lýðfræðilega þróunin í dag. Öldruðum mun fjölga mjög mikið vegna þess að barneignum fækkar á meðan fólk sem kemur af fjölmennari kynslóð nær hærri aldri.

Ef við erum ekki bara að tala um klínískt þunglyndi heldur leiðir til að takast á við áskoranir sem við öll eða flest, alla vega mörg, munum þurfa að takast á við á efri árum er líka ágætt að hafa í huga að eldri kynslóðir eru ekki allar eins. Ég segi oft við fólk sem hnýtir í skoðanir eldra fólks og þykja þær íhaldssamar og hvaðeina: Eldra fólk skilur ekki tölvur verr vegna þess að það er eldra. Það er vegna þess að það ólst upp og kynntist lífinu og tilverunni á tíma þegar tölvur voru ekki til. Þess vegna virkar oft eldra fólk fyrir yngra fólki eins og það sé á einhvern hátt vitlaust, ekki alveg í takti við tímann, en þetta er einkenni þess að við ölumst upp á mismunandi tíma. Það sem þótti algjörlega sjálfsögð almenn skynsemi 1950 þykir ekki almenn skynsemi árið 1990 og öfugt. Þarna verður líka til ákveðið misræmi milli þess hvernig kynslóðirnar geta í raun skilið hver aðra og þarfir hver annarrar. Ef þrítugur einstaklingur í dag ætlar að fara að hjálpa sjötugum einstaklingi að leysa hans vandamál þarf að nálgast þau út frá aðstæðum sjötuga einstaklingsins og þeirrar almennu skynsemi, þeirrar heimsmyndar, þeirra verkfæra sem sjötugi einstaklingurinn getur notað en ekki einfaldlega öllu því sem hinum þrítuga finnst kannski sjálfsagt og augljóst að hægt sé að gera. Þetta virkar eflaust í báðar áttir.

Það eru ákveðnar jákvæðar fréttir fyrir eldri kynslóðir framtíðarinnar, þ.e. fólkið sem verður að eldri kynslóðinni seinna. Tæknibreytingar eru að leiða af sér ýmis tækifæri, t.d. í sambandi við félagsleg úrræði og virknimöguleika og þess háttar, tækifæri sem fólk getur ekki endilega nýtt sér sem er nú á efri árum vegna þess að það ólst ekki upp á tíma þegar tæknin var jafn útbreidd og mikið notuð til þeirra hluta sem hún er notuð til í dag. Það tengist einnig fötlunarfræðinni góðu og því hvernig hægt er að nýta tæknina til að leysa vandamál sem herja á fólk sem býr við líkamlegar eða andlegar takmarkanir, hvort sem það er sökum aldurs eða af öðrum ástæðum.

Ég veit svo sem ekki hvort ég var með afmarkaðan punkt með þessari ræðu, virðulegi forseti, en mér fannst rétt, sérstaklega í ljósi ræðna annarra hv. þingmanna, að gera svolítinn greinarmun annars vegar á klínísku þunglyndi, sem getur herjað á fólk jafnvel þegar allt virðist vera í lagi, og hins vegar vondum aðstæðum sem láta fólki líða illa. Þarna er ákveðinn greinarmunur og hann er ekki mikilvægur vegna þess að annað skipti meira máli en hitt heldur verða þessar tvær tegundir vandamála leystar með ólíkum hætti. Sem dæmi virkar lyfjagjöf og sálfræðiráðgjöf mjög vel við klínísku þunglyndi þar sem aðstæður eru kannski ekki rót vandans heldur eitthvað annað. Þá eigum við ekki að hafna því og láta eins og lyfjagjöf sé eitthvert vandamál. Lyfjagjöf er ekki sjálfkrafa vandamál, hún er ágætisverkfæri sem hægt er að nota til að leysa vandamál en hún er augljóslega ekki rétta verkfærið til að leysa vandamálin þegar þau eru ekki líffræðileg heldur til komin vegna aðstæðna einstaklingsins. Þetta er allt eitthvað sem við verðum að hugsa um gagnvart kynslóðunum áður en þær verða að eldri kynslóðinni. Það er þannig sem best er að eiga við öll vandamál.

Að því sögðu eigum við að sjálfsögðu (Forseti hringir.) alls ekki að láta þá sem núna eru eldri verða út undan og við eigum, eins og segir í greinargerðinni, að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að ráða bug á þessum alvarlega vanda.