150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Mig langar að segja örfá orð í lok þessarar umræðu. Ég þakka kærlega fyrir þann stuðning sem allir þingmenn sem hafa tekið þátt í umræðunni hafa sýnt málinu. Mér sýnist vera þverpólitískur stuðningur við þingsályktunartillöguna og því bind ég miklar vonir við að hún renni hratt og vel í gegn.

Ég vil aðeins bregðast við athugasemdum einstakra þingmanna með örfáum orðum og byrja á því sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson benti á, hvort það væri ráð að útvíkka eða fjölga í nefndinni sem hefði þetta hlutverk og taka inn fulltrúa frá Öryrkjabandalaginu. Mér finnst það koma fyllilega til greina og jafnvel að fá fleiri aðila inn í vinnu þeirrar nefndar. Eins og ég gat um fyrr í dag held ég að það sé mikilvægt að ekki séu einungis svokallaðir sérfræðingar í þessari nefnd heldur líka fulltrúar þeirra hópa sem málið tekur til og þá er ég auðvitað að tala um eldri borgara sjálfa. Ég tek einnig undir það sem hér er sagt um að það þurfi að skoða sérstaklega hvernig samspili þunglyndis og tekna eldri borgara er háttað. Hv. þm. Inga Sæland benti á erfiðleika sem sumir kljást við, t.d. við að leysa út lyfin sín. Að sjálfsögðu er samband þar á milli, við erum með hóp einstaklinga sem hafa ekki úr miklu að spila og það hefur áhrif á andlega heilsu þess hóps.

Ég tek líka undir mál hv. þm. Ingu Sæland varðandi embætti hagsmunafulltrúa aldraðra. Inga Sæland hefur verið ötull baráttumaður fyrir kjörum og lífsgæðum eldri borgara og ber að hrósa henni sérstaklega fyrir þann málflutning sem hún teflir iðulega fram og ég lýsi mínum stuðningi við hennar mál hvað þetta varðar.

Það er rétt sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson bendir sömuleiðis á, að rót og orsakir þunglyndis geta að sjálfsögðu verið flóknar. Þess vegna er mikilvægt að hér sé vandað til verks og að nefndin sem hefur það hlutverk að greina vandann og koma með aðgerðir sé meðvituð um að þetta er ekki einfalt úrlausnarefni. Þunglyndi er flókinn sjúkdómur og lífshættulegur, eins og ég gat um áðan, en iðulega er hægt að ráða einhverja bót á honum.

Ég tek sömuleiðis undir það sem hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði um atvinnuþátttöku eldri borgara. Við þurfum að skoða þetta í því samhengi líka. Félagsleg einangrun sem getur orðið meðal eldri borgara er áhyggjuefni eftir að fólk hættir að vinna eða er látið hætta að vinna. Ég held að í þessu máli þurfi sveigjanleiki og valfrelsi að vera lykilhugtökin. Ég tel að við nýtum ekki krafta og mannauð eldri borgara í þeim mæli sem við ættum að gera. Við ættum að vera miklu sveigjanlegra í þeim efnum.

Eins og ég nefndi í minni ræðu er maður manns gaman. Við erum félagsverur sem dýrategund og það skiptir máli að við séum í samneyti hvert við annað. Hraðinn má ekki vera slíkur í samfélaginu að við hættum að sinna hvert öðru. Hér þarf sérhver fjölskylda líta í eigin barm þegar kemur að þeim eldri borgurum sem eru í lífi okkar og hvernig við sinnum því fólki. Við eigum að standa okkur miklu betur og við eigum að brúa bil á milli kynslóða. Ég held að yngsta kynslóðin njóti ekki síst góðs af því að vera í nánum tengslum við afa sína, ömmur o.s.frv. þannig að ég held að þetta sé nokkuð sem allt samfélagið geti hagnast og grætt á, auk þess sem það einfaldlega bætir lífið.

Að lokum, herra forseti, bind ég vonir við að við náum að afgreiða þetta mál hratt og vel. Í mínum huga er engin ástæða til að samþykkja það ekki. Við þurfum að halda málinu vakandi því að hérna dembast yfir alls konar mál og það þarf að setja þetta í forgang. Þetta er eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar. Við ákváðum að setja það fyrst á dagskrá í upphafi þessa þingvetrar. Þetta er fyrsta þingmálið sem ég legg fram á þessu þingi.

Herra forseti. Ég held að fá mál séu stærri en einmitt þau sem snerta sjálfa lífshamingjuna og tilgang tilverunnar.