150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

aðgerðaáætlun í jarðamálum.

20. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir andsvarið. Varðandi takmarkanirnar gengur þessi tillaga öll út frá því að ekki sé hægt að segja: Svona er þetta og svona er þetta ekki. Þess vegna þarf víðtækt samráð, það þarf að gæta að samspili við skipulag og það þarf að horfa á starfsemina sem fram fer á landinu. Þannig getur bóndi með rúmlega meðalbú við núverandi aðstæður verið með þrjár til fimm jarðir undir og fjöldi jarða segir ekki endilega til um stærðina á landinu, hvorki um stærðina á ræktuðu landi né beitarlandi sem viðkomandi bóndi hefur til umráða. Lykilatriðið er því að bæði sveitarfélög og ríkisvaldið fái aðkomu að málunum til að hægt sé að taka skynsamlegar ákvarðanir byggðar á aðstæðum á hverjum stað.

Varðandi fasteignamatið er sú aðgerð náttúrlega sett fram í margþættum tilgangi. Það er mjög mikilvægt fyrir alla þá sem eiga land, hvort sem það er ríkisvaldið eða einhver annar, að til sé mat á því hvers virði það er. Að mínu mati er það ein af ástæðunum fyrir kæruleysi á því sviði að ekki hefur verið horft á land sem þá auðlind sem það raunverulega er. Ein ástæðan er því að fá rétt mat á landi og fasteignum sem eru á jörðum um land allt. Það mætti svo einmitt eftir aðstæðum í sveitarfélögunum velta fyrir sér hvort það væri t.d. ástæða til að hækka fasteignamat á útihúsum sem ekki eru í nýtingu, sérstaklega ef þörf er fyrir nýtingu á þeim á svæðinu eða til að skapa hvata til að nýta þau til nýsköpunar.