150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

aðgerðaáætlun í jarðamálum.

20. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fleiri góðar spurningar. Varðandi dagsetninguna sem þarna kemur fram er verið að vísa til þess að þá verði Alþingi gefin skýrsla um framvindu áætlunarinnar en aftur á móti yrði dagsetning kannski valin út frá því sjónarmiði að það væri raunhæft að allar aðgerðir væru komnar af stað. Það er óraunhæft að öllum verði lokið en það er raunhæft að allar aðgerðir væru hafnar og jafnvel einhverjum lokið alveg en ekki allri áætluninni sem slíkri.

Hitt atriðið var um lánasjóðinn. Sú aðgerð er að ýmsu leyti ekki nákvæmlega útfærð í texta með tillögunni en það sem kemur þó fram er að Byggðastofnun yrði falið að útfæra lánaflokk sem hefði fyrst og fremst það hlutverk að lána þeim sem ætla í búrekstur til jarðakaupa.