150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

aðgerðaáætlun í jarðamálum.

20. mál
[17:34]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar sem eru ljómandi góðar. Eins og fram kom hjá hv. þingmanni er ekkert einhlítt. Það er margt í þessu sem þarfnast mikillar og góðrar skoðunar og mikilvægt að nefndin rýni mörg atriði. Þó að markmiðin séu skýr í tillögunni, það séu reifaðar leiðir og sums staðar gengið mjög langt þarfnast þetta allt frekari skoðunar og það sem kannski er líka verið að draga fram með tillögunni er að ákvörðun um eina aðgerð hefur áhrif á hvernig sú næsta er útfærð.

Hv. þingmaður kom inn á landsmenn. Það er mjög skýrt hér að landsmenn eru þeir sem hafa skilgreind tengsl við landið, búa hér, hafa búið hér eða reka hér atvinnustarfsemi. Af hverju ekki sé lagt fram lagafrumvarp? Það er einmitt af þessari sömu ástæðu. Það er dregið fram og farið mjög vel yfir það hvaða markmiði þurfi að ná en til þess kunna að vera fleiri færar leiðir en ein og mikilvægt að kalla hæfustu lögfræðinga landsins til. Þetta er eitthvað sem þarfnast mikillar yfirlegu. Auk þess er unnið að sömu málum á öðrum vettvangi, eins og fram kemur í greinargerðinni.