150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

aðgerðaáætlun í jarðamálum.

20. mál
[18:06]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að leggja orð í belg um þetta mikilvæga mál. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir framsöguna og vinnu hennar að þessu máli. Ég ætla svo sem ekki að fara í langa ræðu en vil koma inn á hvers vegna verið er að þessu og reyna að koma því að á nokkuð einfaldan hátt. Hér er ekki bara átt við erlenda auðkýfinga heldur er einnig verið að ræða um jarðasöfnun Íslendinga í þessu sama atriði. Við flest hér inni þekkjum hvernig staðan er í dreifbýlinu og þurfum ekki að fara langt frá höfuðborgarsvæðinu til að komast í fagra dali þar sem rennur nokkuð gjöful laxveiðiá. Þar sem áður voru margir bæir með ljósin kveikt lifir hins vegar kannski bara eitt eða tvö ljós. Eftir stendur samfélag manna þar sem vandamálin eru, eins og hefur komið hér fram, þau að ekki næst í fyrirsvarsmenn jarða, menn taka ekki þátt í því sameiginlega sem gengur og gerist í sveitum landsins, menn halda ekki við girðingum og ekki ríður sveitarfélagið feitum hesti frá útsvarstekjum þessara einstaklinga því að ekki skila þeir miklu til samfélagsins. Svona mætti lengi telja.

Í 6. lið þingsályktunartillögunnar er lagt til að komið verði á lánasjóði vegna jarðakaupa. Við flutningsmenn teljum mjög mikilvægt að þeim sem hafa áhuga á að leggja fyrir sig búskap verði gert kleift að kaupa land og hefja búskap. Í dag er nær útilokað fyrir hinn venjulega Pétur og Pál og Gunnu og Siggu að fara þá leið. Við þurfum að horfa á hlutina með öðrum augum og eins og hefur komið fram yrði Byggðastofnun falið að útfæra vissan lánaflokk þar sem eingöngu væri lánað til jarðakaupa, þ.e. til kaupa á landi. Við höldum fasteignum utan við það.

Við sjáum jafnvel fyrir okkur að lánin yrðu veitt til margra áratuga og að eigendur fjármagnsins sem lánuðu það til þessara nota gætu horft til þess að afgjaldið sem viðkomandi ábúandi myndi reiða af hendi væri í formi þeirra vaxta sem þyrfti að greiða af viðkomandi höfuðstól en höfuðstóllinn væri í sjálfu sér ekki greiddur niður. Við tölum hér um Byggðastofnun sem lánveitanda og að ríkið tæki þátt jafnvel í þessu verkefni.

Land heldur verðgildi sínu umfram allt annað. Við þekkjum það öll að menn geta fengið lán til allt að átta ára til bílakaupa en um leið og maður setur lykilinn í svissinn og keyrir af stað fellur hann í verði um 15%, bara á fyrstu 100 metrunum. Landi er hins vegar viðhaldið. Í dag taka menn lán til jarðakaupa til 25–40 ára og ef við setjum þetta í samhengi við bílakaup, virðulegur forseti, er það ansi skökk mynd. Ef við ætlum að halda ljósunum kveiktum í sveitum landsins, hafa líf þar áfram, er ein leið sem ég tel mjög skynsamlega að nýir ábúendur fái slík lán.

Skiljanlega hafa menn sett í brýnnar þegar verið er að setja skorður við ýmsu varðandi jarðakaup og annað og telja að eignarrétturinn verði fyrir borð borinn. Framsögumaður kom ágætlega inn á það í sinni framsögu að í þessari þingsályktunartillögu er horft til þess að hann sé virtur. Það er alveg eðlilegt og skiljanlegt að við sem þjóð horfum til þess hvernig við förum með auðlindina.

Við þurfum líka að horfa til framtíðar og velta fyrir okkur hvernig við viljum sjá hlutina. Ég setti niður punkta á blað, meira til gamans en kannski líka til þess að auðga umræðuna, og t.d. má velta fyrir sér hvernig þetta er á Grænlandi. Þar á þjóðin landið og mér finnst mjög skynsamleg leið að þjóðin eigi allar auðlindir. Ég geri mér þó líka grein fyrir því að það gæti orðið svolítið torsótt leið að komast þangað. Ef við horfðum fram í tímann um 50 ár eða svo og ábúendaskipti færu fram með þeim hætti sem ég hef komið inn á áður í gegnum þennan lánasjóð vegna jarðakaupa gætum við alveg horft á það þannig með vissum gleraugum að þjóðin ætti auðlindina sem heitir land. Ég tel það verulega góða fjárfestingu fyrir þjóðina að eiga sínar auðlindir, geta ráðstafað þeim að sínu frumkvæði en ekki að frumkvæði auðvaldsins, eins og við segjum.

Í þessari tillögu kemur einnig fram að menn þurfi að setja skorður við fjölda jarða og þess háttar en að horft verði til þess og ekki settar skorður við því að nútímabúskapur kallar á það að menn nýti fjölda jarða. Það þekki ég ágætlega sjálfur. Mikilvægasta atriðið í þessu öllu saman er að viðhalda byggð og framleiða matvæli og að auðlindin sé í höndum okkar landsmanna sem hér búum. Það er stærsta atriðið. Ég tel að þessi þingsályktunartillaga sé verulega gott skref í þá átt. Ég vonast til þess að sem flestir leggi hönd á plóg í því að koma þessu máli áfram. Fyrst bæði Vinstri grænir og Framsóknarmenn hafa lagt þetta fram í tvö ár hlýtur að vera áhugi fyrir málinu á stjórnarheimilinu.