150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

aðgerðaáætlun í jarðamálum.

20. mál
[18:16]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir mjög góða umræðu um þessa þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í jarðamálum. Tilgangi áætlunarinnar var mjög vel lýst þegar talað var um að halda ljósunum kveiktum um allt land. Í því felast almannahagsmunirnir, að við nýtum tækifærin til að skapa atvinnu og verðmæti um allt land fyrir alla íbúa landsins og fyrir hin minni dreifbýlissamfélög.

Ég vil líka ítreka að þessari þingsályktunartillögu er ætlað að bæta við og draga fram þau verkefni sem þarf að fara í til viðbótar þeirri vinnu sem fram fer í forsætisráðuneytinu, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og fleiri ráðuneytum nú þegar. Það verður ekki hjá því komist að einhver skörun sé á milli þessara verkefna og það er einmitt það sem er svo mikilvægt. Ég legg áherslu á að það sé skörun. Þess vegna er mikilvægt að hafa aðgerðaáætlun vegna þess að það er ekkert eitt verkefni sem unnið er að í einu ráðuneyti sem nær betri stjórn á umsýslu jarða í landinu og umsjón með landi.

Mig langar líka að koma aðeins betur inn á nokkur atriði í 7. lið aðgerðaáætlunarinnar um mikilvægi þess að skoða ýmis lagaákvæði önnur en þau sem helst hafa verið til umræðu í umfjöllun um jarðamál síðustu misserin. Eitt af því er hvert eigi að vera markmið eignarhalds ríkisins á jörðum. Það hefur að einhverju leyti verið skýrt í vinnu með eigendastefnu um ríkisjarðir en þarf að skýra betur í lögum og fjalla um það á Alþingi. Hvernig land á ríkið að eiga? Á það að vera landbúnaðarland? Land sem fylgja vatnsréttindi eða einhver önnur hlunnindi? Eða á það frekar að vera land sem nýtur verndar fyrir einhverri nýtingu eða allri nýtingu? Það þarf að endurskoða lagaákvæði um forsendur fyrir sölu ríkisjarða til núverandi ábúenda, m.a. í ljósi breytinga á landnýtingu og búskaparháttum. Á jörðum þar sem smáútgerð stóð áður kannski undir búsetu og svo lítil búfjárrækt til hliðar sækja nú ábúendur oft og tíðum vinnu til nærliggjandi byggðarlaga en vilja gjarnan búa á jörðum sem nú eru í eigu ríkisins en samkvæmt laganna hljóðan er þeim ómögulegt að kaupa þær. Því eru þess dæmi að það er auðveldara fyrir utanaðkomandi að kaupa slíka jörð en þá sem raunverulega vilja búa þar og byggja á landinu jafnvel eitthvað nýtt, rækta skóg eða stunda minni búfjárrækt. En þetta eru jarðir sem aldrei geta staðið undir þeirri stærð af búi sem er grundvöllur þess að búskapur sé meginatvinna.

Síðan hefur aðeins verið komið inn á fyrirsvar og ábyrgð og skyldur sem fylgja eignarhaldi og mig langaði aðeins að bæta við það. Það er alltaf mikilvægt, hvort sem er einn eða fleiri eigendur að jörð, að stjórnvöld og nágrannar geti á öllum tíðum náð í eiganda lands eða fyrirsvarsmenn vegna samfélagslegra verkefna, innviðauppbyggingar eða skipulagsvinnu, svo eitthvað sé nefnt. Fyrirsvarsmenn eiga að hafa umboð til að koma fram fyrir hönd annarra eigenda jarða við úrlausn mála sem lúta að réttindum og skyldum eigenda, taka ákvarðanir um daglegan rekstur, hagsmunagæslu og ýmsar brýnar ráðstafanir. Því finnst mér og okkur flutningsmönnum rétt að skoða hvort ekki væri skylt að fyrirsvarsmaður væri búsettur í því sveitarfélagi þar sem jörðin er. Með leyfisskyldu við kaup á jörðum yrði auðveldara að fylgja því eftir að fyrirsvarsmaður væri sannarlega til staðar.

Þá vil ég ítreka að tillagan gerir ráð fyrir að um leið og hún er samþykkt á þingi verði hafist handa við öll þau verkefni sem þarna eru tilgreind en síðan í upphafi árs 2021, það er ekki mjög langt í 2021, yrði gerð grein fyrir framgangi áætlunarinnar. Þá ættu allar aðgerðirnar að vera komnar vel á veg.

Það er lengi hægt að halda áfram að ræða um land og jarðir en ég ætla að láta hér staðar numið og held áfram við síðari umr. um málið.