150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur þegar hún sagði m.a. að við þyrftum að taka þátt í samstarfi þjóða til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Ég er innilega sammála henni hvað það varðar. Ég vil líka undirstrika að þar er í rauninni Evrópusambandið okkar sterkasti bandamaður, eina þjóðasamstarfið sem hefur tekið algjörlega óskoraða afstöðu með umhverfinu. En ég er líka sammála og tek undir með hæstv. forsætisráðherra sem sagði í gær á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að nú dygðu engar afsakanir lengur. Við verðum að bregðast við núna.

Þess vegna verð ég að segja að ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með ræðuna. Ég hélt satt best að segja að við myndum heyra nýjar tillögur ríkisstjórnarinnar á loftslagsráðstefnunni, að boltinn hefði verið gripinn sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna henti á loft þegar hann sagði: Við þurfum að gera meira.

Ég bjóst við því í einlægni að ríkisstjórnin kynnti tillögur sem þýddu meiri aðgerðir því að miðað við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar erum við, miðað við 2030, að fara að losa um 29% minna af gróðurhúsalofttegundum. Það mun ekki duga miðað við núverandi aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um að verða kolefnishlutlaus árið 2040.

Við Íslendingar þurfum að gera meira, við þurfum að skapa heildstæða stefnu sem miðar að því að skapa jákvæða hvata, hvort sem tekið er til samgangna, neyslumynsturs almennings eða hvers eina sem hægt er að nefna. Við í þinginu getum til að mynda byrjað á því að spegla allar ákvarðanir þingsins og ríkisstjórnarinnar í þessum markmiðum. Spyrjum okkur með öll mál sem er á dagskrá: Er þessi tiltekna ákvörðun til þess fallin að hafa jákvæð, neikvæð eða hlutlaus áhrif á loftslagið? Ef hún er neikvæð getum við bara fellt hana strax. Ef hún er hlutlaus getum við skoðað hvernig hægt er að bæta hana svo að hún verði á endanum jákvæð. Þetta er verkefni sem við eigum að standa sameinuð í en ekki sundruð. (Forseti hringir.) Við erum með sérstakt markmið, það að verða kolefnishlutlaus 2040. Við þurfum sterkari og meiri aðgerðir en ríkisstjórnin hefur þegar boðað.