ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.
Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Frumvarpið flyt ég fyrir hönd forsætisnefndar Alþingis en nefndin stendur öll að frumvarpinu ásamt áheyrnarfulltrúum Viðreisnar og Flokks fólksins.
Með frumvarpinu er nánar skýrt hvenær lög um endurskoðendur og endurskoðun, samanber lög nr. 49/2019, taki til starfsmanna Ríkisendurskoðunar en lögin taka gildi 1. janúar nk. og koma í stað eldri laga um endurskoðendur frá 2008.
Af 43. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, leiðir að endurskoðun á fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja fer fram á vegum Alþingis og í umboði þess eftir nánari fyrirmælum í lögum. Er þetta grundvallarþáttur í fjárstjórnarvaldi Alþingis er lýtur að eftirliti þess með framkvæmd fjárlaga. Samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga frá 2016 skal ríkisendurskoðandi í umboði Alþingis hlutast til um endurskoðunina. Hefur hann eftirlit með fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja. Er ríkisendurskoðanda m.a. falin endurskoðun ársreikninga hlutafélaga og annarra félaga þar sem ríkið á helmingshlut eða meira.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga um endurskoðendur og endurskoðun sem nú hafa verið sett, og taka eins og áður sagði gildi um næstu áramót, skal endurskoðun fara fram á vegum endurskoðunarfyrirtækis sem hefur starfsleyfi og er skráð í endurskoðendaskrá. Er endurskoðendum skylt að stofna félag um rekstur endurskoðunarfyrirtækis í því formi sem þeir sjálfir kjósa og fengið hefur starfsleyfi til endurskoðunarstarfa.
Fram hafa komið efasemdaraddir um að Ríkisendurskoðun og þeir endurskoðendur sem starfa hjá embættinu geti endurskoðað ársreikninga hlutafélaga og sameignarfélaga þar sem ríkið á helmingshlut eða meira öðruvísi en þá í félagi sem Ríkisendurskoðun eða hlutaðeigandi starfsmenn rækju. Frumvarp þetta miðar að því að eyða slíkri óvissu og taka af allan vafa um að ríkisendurskoðandi geti framfylgt lögbundinni skyldu sinni án þess að það sé gert í sérstöku félagi. Því er lagt til að tekið verði fram í 21. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga að þau ákvæði laga um endurskoðendur og endurskoðun að endurskoðun fari eingöngu fram í endurskoðunarfyrirtæki með starfsleyfi sem rekið er í sjálfstæðu félagi taki ekki til ríkisendurskoðanda, Ríkisendurskoðunar eða starfsmanna embættisins, samanber 1. gr. frumvarpsins sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
„Við 1. mgr. 21. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 4. gr. laga um endurskoðendur og endurskoðun gilda þó ekki um ríkisendurskoðanda, Ríkisendurskoðun eða starfsmenn embættisins.“
Í gildandi lögum um ríkisendurskoðanda er gert ráð fyrir því að þeir starfsmenn Ríkisendurskoðunar sem hafa löggildingu til þess að sinna endurskoðun falli undir gildandi lög um endurskoðendur að því leyti sem lög krefjast þess að endurskoðunin sé unnin af mönnum sem hafi slík réttindi. Leggja ber áherslu á að með frumvarpinu er í engu raskað þeirri skyldu endurskoðenda sem starfa hjá Ríkisendurskoðun að fagleg störf þeirra falli að öðru leyti að lögum um endurskoðendur og endurskoðun þegar kemur að alþjóðastöðlum um endurskoðun og fyrirmælum um verklag og faglega starfshætti.
Verði frumvarp þetta að lögum mun öllum vafa um gildissvið laga um endurskoðendur og endurskoðun gagnvart lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga verða eytt og staða ríkisendurskoðanda, Ríkisendurskoðunar og starfsmanna embættisins verður óbreytt.
Herra forseti. Ég hef nú lokið við að greina frá meginefni þessa frumvarps sem er einfalt í sniðum og legg til að mál þetta gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu.