150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

betrun fanga.

24. mál
[16:38]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir að gera grein fyrir þessari þingsályktunartillögu um betrun fanga. Ég tel að þetta sé að mörgu leyti mjög gott mál. Heildstæð betrunarstefna í fangelsismálum er brýnt mál fyrir okkur öll og skiptir miklu fyrir almannaheill því að stuðningur við hvern og einn til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er mjög mikilvægur. En ég er hins vegar ekki sannfærð um að samasemmerki sé á milli heildstæðrar betrunarstefnu og nauðsynjar á einstaklingsáætlun fyrir hvern og einn. Heildstæð, almenn stefna getur nýst kannski hluta hópsins mjög vel á meðan einhverjir þurfa sérstaka einstaklingsbundna áætlun.

Það sem mig langar að koma inn á og vil því beina þeirri spurningu til flutningsmanns hvort hann telji ekki að ýmsar forvarnir þurfi að vera hluti af þessari stefnu, eins og t.d. kennsla í líkamsrækt fyrir hvern og einn. Líkamsrækt eða það að hirða um líkamann er ekki nefnt í tillögunni. Komið er inn á geðheilbrigðisþjónustu, en þá vil ég líka beina því til flutningsmanns hvort ekki sé mikilvægt að vera jafnframt með þjálfun í að rækta eigin geðheilsu, fyrir utan náttúrlega þjónustu vegna vandamála sem kunna að vera til staðar. Ég spyr hvort ástæða væri fyrir nefndina að fara sérstaklega yfir þessi mál ef flutningsmaður telur að það skipti máli.