150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

betrun fanga.

24. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið öðru sinni. Tillaga þessi er unnin m.a. í samstarfi við hagsmunasamtök fanga og kemur til þannig að ég átti nokkur samtöl við fulltrúa þeirra samtaka meðan ég sat sem félagsmálaráðherra á sínum tíma. Mér fannst það mjög sláandi hversu ómarkvisst væri unnið með föngum að einhvers konar betrun, að skapa þeim tækifæri til að bæta líf sitt og ráð sitt að afplánun lokinni. Fangelsisdómur væri í rauninni ekkert annað en hin eilífa bið eftir að komast út á nýjan leik án þess að þar væri unnið markvisst að því að byggja einstaklinginn upp að nýju.

Ástæður þess að fólk leiðist út í afbrot eru auðvitað margvíslegar, en það hlýtur að vera vilji okkar í samfélaginu að fólk fái raunveruleg tækifæri til endurkomu sem virkir samfélagsþegnar að afplánun lokinni, að þetta sé ekki refsivist heldur beinlínis tækifæri að nýju upphafi fyrir viðkomandi einstakling. Við byggjum viðhorf okkar til betrunarvistar eða ættum að byggja viðhorf okkar á grundvelli fyrirgefningar og að fólk fái raunveruleg tækifæri en sé ekki útskúfað eða útilokað úr samfélaginu með einhverjum hætti eftir að hafa framið afbrot, hversu alvarlegt sem það síðan kann að reynast. Það bætir ekki samfélag að fólk komi niðurbrotið og án góðrar vonar um framtíð út úr hreinni refsivist.

Ég held að það sé einmitt kjarni þessa máls að virkni sé í afplánun sem gerir öllum, í þessu tilfelli föngum, gott í okkar daglegu störfum, og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að unnið sé að því með markvissum hætti og föngum skapað þetta mikilvæga tækifæri til að bæta líf sitt.