árangurstenging kolefnisgjalds.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Gera betur og annað slíkt, hvati til að lækka kolefnisgjaldið, segir hv. þingmaður. Í raun og veru myndi Flokkur fólksins alls ekki vilja sjá neitt kolefnisgjald heldur skipta úr svartolíu yfir í öðruvísi olíu, fremur koma skemmtiferðaskipum í samband við rafmagn úr landi. Í sambandi við Parísarsamkomulagið og kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 hljómar það ofsalega fallega en ég fæ ekki betur séð en að þetta sé í rauninni tillaga um að árangurstengja. Þetta er árangurstenging þannig að ef þetta gengur ekki eins vel og að er stefnt mun kolefnisgjaldið einfaldlega hækka. Það er enginn sem kemur til með að segja að það muni lækka. Okkur hefur mjög oft tekist vel til við það sem við höfum tekið okkur fyrir hendur, við Íslendingar höfum oft og tíðum staðið okkur einstaklega vel, en í þessu tilviki, á meðan ég sé fyrir mér þjóðfélagshóp sem á um sárt að binda og á ekki einu sinni fyrir bensíni á bílinn eftir miðjan mánuð, þá er það að ætla að koma með auknar álögur og vonast til þess að árangurinn verði eins og að er stefnt, hreinlega endalaust niður á við, að gjaldið muni lækka, allt of mikil áhætta. Mér finnst of mikil áhætta tekin hvað varðar þá hópa sem ég er málsvari fyrir. Það er of erfitt fyrir mig að ímynda mér þá einstaklinga sitja heima vegna þess að það er ekki nóg með að okrað sé á bensínlítranum heldur er hugmyndin að hækka jafnvel kolefnisgjaldið á móti ef bensínlítrinn lækkar, eins hv. þm. Þorsteinn Víglundsson nefndi áðan. Þetta er bara dapurt.