150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

tekjuskattur.

34. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum. Frumvarpsgrein þess er ákaflega einföld þar sem aðeins er lögð til sú breyting að í stað orðsins „sjö“ í 1. málslið 1. mgr. 27. gr. laganna komi: 20. Frumvarpið var flutt áður á 149. löggjafarþingi og náði ekki fram að ganga. Það hafði reyndar þá gengið til umsagna og meðferðar í nefndinni og um það bárust umsagnir sem héldu afskaplega vel utan um þetta mál og nauðsyn þess en það er fyrst og fremst flutt til að auðvelda kynslóðaskipti á bújörðum og í ýmsum fyrirtækjarekstri eða kynslóðaskipti í íslensku atvinnulífi, má segja. Nái frumvarpið fram að ganga verður heimilt að dreifa skattskyldum söluhagnaði þar sem hluti söluandvirðis er greiddur með skuldaviðurkenningu til allt að 20 ára í stað sjö eins og er í núgildandi lögum.

Kynslóðaskipti á fyrirtækjum og bújörðum í rekstri hafa oft og tíðum reynst erfið og margs þarf að gæta við yfirfærslu verðmætanna, til að mynda réttinda annarra erfingja en þeirra sem við taka. Algengt er að stofnandi fjölskyldufyrirtækis vilji selja einhverjum í fjölskyldunni fyrirtæki sitt eftir langan rekstur. Oftar en ekki er viðkomandi reiðubúinn til að aðstoða við fjármögnun kaupanna, t.d. með því að taka við greiðslu, að hluta eða öllu leyti, í formi skuldaviðurkenningar. Slík fjármögnun er oft forsenda þess að sá er tekur við rekstrinum hafi til þess bolmagn. Um leið eru réttindi annarra erfingja tryggð, enda viðkomandi eign seld á sanngjörnu markaðsverði en ekki undirverði líkt og oft vill verða við kynslóðaskipti. Erfingjar standa því betur að vígi og einnig ríkissjóður. Með útgáfu skuldaviðurkenningar frá kaupanda eignast seljandi í raun ígildi eftirlaunasjóðs sem tryggir honum tekjur. Andist viðkomandi áður en greiðslum lýkur er eftirstöðvum skuldabréfsins skipt upp á milli erfingja í samræmi við lög og erfðaskrá þar um og ríkissjóður fær eðlilega hlutdeild í skatttekjum sem áður.

Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta stóra verkefni sem margar fjölskyldur standa frammi fyrir. Þegar ég tala um fjölskyldur erum við flutningsmenn þessa frumvarps, sem eru auk mín hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Halla Signý Kristjánsdóttir, sammála um að þetta sé kannski sá hluti atvinnulífsins, hvort sem það eru einyrkjar, fyrirtæki í byggingariðnaði eða smiðjur, verkstæði, búrekstur — sem er reyndar þungamiðja í greinargerð sem fylgir þessu frumvarpi — þar sem slík mál eru oft á tíðum erfiðleikum bundin; fyrst og fremst vegna fjármögnunar kaupanna og þess að ekki sé verið að leita annarra leiða, t.d. með því að reyna að koma söluverðinu undir markaðsverð. Meðferð á slíkum gjörningum hefur á undanförnum árum tekið breytingum í meðferð skattstjóra. Hér áður þótti eðlilegt að færa þessar eignir á milli á skattmatsverði en með breyttri framkvæmd á eftirliti með skattauppgjöri og slíkum eignatilfærslum hefur orðið breyting þar á.

Ég ætla ekki að rekja í lengra máli greinargerðina eða rök fyrir þeirri litlu breytingu sem þarna verður, sem er kallað mjög eftir. Það kom mjög skýrt fram í þeim umsögnum sem sendar voru um frumvarpið á síðasta þingi að aðilar telja að þetta geti fært heilmikið líf í þetta mikilvæga verkefni sem við getum þá liðkað fyrir, sem eru kynslóðaskipti á ýmsum fyrirtækjum í okkar atvinnulífi.

Það er freistandi, virðulegi forseti, að fjalla um málið líka út frá þeirri hlið, þar sem undanfarið hefur farið fram í þingsalnum og í samfélaginu heilmikil umræða um jarðasölu og hvernig við getum staðið betur að henni og margir kalla eftir reglum í þeim efnum, sem eru þá oftar en ekki takmarkandi eða íþyngjandi reglur fyrir þá sem eiga eignina, verið að setja einhvers konar skorður um ráðstöfun hennar. Ég held að við ættum að leggja höfuðáherslu á að horfa ekki síður í gegnum skattkerfið og hvernig við getum beitt því til að ná fram því sem við erum öll sammála um að við getum gert betur í, að auðvelda búsetu- og kynslóðaskipti í sveitum. Við flutningsmenn gerum það ekki að efni þessa frumvarps en það háttar þannig til að víða í löndum í kringum okkur eru mjög áhugaverðar reglur um skattalega meðferð á söluverði bújarða, meira að segja á söluverði fyrirtækja sem starfa úti á landi í fámennum byggðarlögum og eru byggðarlega mikilvæg og ýmiss konar þjónustustarfsemi sem er gripið til til að standa betur vörð um slíkan rekstur.

Virðulegur forseti. Ég legg til að þessu frumvarpi verði vísað til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd að lokinni umræðu.