150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

120. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir mjög áhugavert andsvar og áhugaverðar vangaveltur um loftslagsmálin. Ég er í rauninni alveg hjartanlega sammála, ofboðslega mikið magn af upplýsingum kemur til okkar um loftslagsmálin og ég held að þar sé lykilatriði, og ég vitna þar í Gretu Thunberg, að auðvitað eigum við að horfa á vísindin og það sem þau segja okkur. Þau eru alveg skýr varðandi loftslagsmálin. Hins vegar er líka mikilvægt að einblína ekki á smáu atriðin eins og í þessu dæmi sem við erum að fjalla um í tengslum við pálmaolíuna. Auðvitað mengar pálmaolían minna þegar hún er brennd á bílnum. En það er allt hitt sem er svo ofboðslega mengandi, framleiðslan á pálmaolíunni.

Hv. þingmaður nefndi málið um orkujurtirnar, sem ég kom líka inn á í framsöguræðunni. Við erum ekki að ryðja í burtu regnskógi og gríðarlega mikilvægu landi sem nú þegar framleiðir svo mikið súrefni og stendur undir mjög stóru og fjölbreyttu lífríki. Á Íslandi eru aðstæður allt aðrar og ég vil nýta tækifærið þar sem ég náði ekki að taka þátt í umræðunni áðan og fagna því máli líka. Við höfum svo mörg tækifæri til þess, bæði að nýta það sem er nú þegar úrgangur, eins og ég nefndi áðan, með að nýta úrgangsolíu í lífdísil og orkujurtir.

Ég tek undir með hv. þingmanni, við þurfum að vanda okkur í umræðunni um loftslagsmál og það er engum til gagns þegar farið er með rangt mál í því samhengi.