150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

fræðsla um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.

36. mál
[18:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á að vera kannski með svolítið sérhæfða spurningu. En ég sá þegar ég fór að leita í gögnunum mínum, og mundi eftir að ég hafði verið með á fyrri þingsályktunartillögu, að þetta voru m.a. upplýsingar sem ég aflaði mér eða fékk til mín í tengslum við málið þá. Ég vil hvetja hv. velferðarnefnd, væntanlega, virðulegur forseti, til að velta þessu líka upp. Ég ætla ekki að tala sérstaklega fyrir einhverju fyrirtæki úti í bæ per se, en mér er ljóst að þarna er um þverfaglega miðstöð að ræða og ég held að það sé svo mikilvægt þegar við glímum við sjúkdóma eins og þennan, auk þess sem þar er ákveðin endurhæfingarþjónusta og þingsályktunartillagan fjallar um það.

Ég held að við eigum mikil sóknarfæri í því að leggja enn frekari áherslu á endurhæfingu í heilbrigðiskerfinu og kallað er meira og meira eftir því. Eftir því sem lífaldur okkar lengist, og við viljum auðvitað að fólk lifi líka við góða heilsu, er mikilvægt að góð aðstaða sé til endurhæfingar. Ég þekki sérstaklega endurhæfingarspítalann Reykjalund, þar sem ég veit að er líka þverfaglegt teymi sem vinnur að slíkum málum. Þetta er kannski áhugavert líka inn í umræðuna um heilbrigðisstefnu og mikilvægi þess að við séum með þessa þjónustu. Hún þarf örugglega að vera margs konar og misjöfn eftir því um hvernig sjúkdóm er að ræða en ekki síður um hvers konar einstaklinga er að ræða og þarna, eins og á fleiri stöðum, tala ég auðvitað fyrir ákveðnum fjölbreytileika og frelsi einstaklingsins til að velja sér ákveðna þjónustu. Við vitum að nú er verið að bjóða út þjónustu sjúkraþjálfara og finna þarf einhverja góða lendingu í því hvernig við kaupum þjónustu frá þessum einkaaðilum eða frá stofnunum úti í bæ. Þetta er alls ekki endilega hagnaðardrifin starfsemi. En í þessu fólst kannski ekki bein spurning, heldur svona frekari tjáning á þessu ágæta máli.