150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:15]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið þó að ég verði að játa að mér finnst það sem hér var talið upp ekki endilega að standa undir þeirri fullyrðingu sem fram kom í ræðu hv. þingmanns um Evrópusambandið. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann að Evrópusambandið eigi ekki að hafa skoðun á því hvernig með landamæri þess er farið? Nú vill svo til að landamæri eru þeirrar gerðar að þau eru mæri tveggja ríkja, stundum fleiri, í þessu tilviki tveggja. Telur hv. þingmaður að með því að Evrópusambandið hafi skoðun á því hvernig hátta skuli landamærum sínum sé verið að leggja stein í götu Breta? Það eru í raun Bretar sem eru að reyna að semja um að um þau landamæri gildi sérstakar reglur, að einhverju leyti þær reglur sem gilda núna í dag en gilda almennt ekki á milli ríkja nema um það hafi verið gerðir sérstakir samningar. Er hv. þingmaður ósammála þessu?