150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:30]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðuna. Það vill svo skemmtilega til að við þingmaðurinn erum fulltrúar fyrir sama kjördæmi og þekkjum þess vegna af hve mikilli ósanngirni hjúkrunarrýmum hefur verið deilt í það kjördæmi. Ég sé að fleiri þingmenn kjördæmisins kinka kolli þegar það er fært í tal. Ég tek undir með þingmanninum sem segir að það þýði ekki að færni- og heilsumatskerfið sé vont. Það getur hins vegar hæglega þýtt að ekki sé nægilega mikið af hjúkrunarrýmum í Suðvesturkjördæmi eða í þeim sveitarfélögum sem þingmaðurinn taldi upp.

Það sem mig langar að ræða við þingmanninn er örlítið á ská við það sem hún nefndi, það er þetta með uppbyggingu hjúkrunarrýmanna. Ég spyr hvort þingmaðurinn sé mér sammála um að kannski sé stofnanahugsunin, sem hjúkrunarheimilin svo sannarlega eru fulltrúar fyrir, orðin dálítið gamaldags og að kannski ættum við að hugsa um önnur þjónustumódel en akkúrat að búa fólki hjúkrunarrými. Raunar kom hv. þm. Inga Sæland inn á það í ræðu sinni áðan að það er hægt að veita miklu meiri þjónustu í heimahúsum. Mig langar aðeins að heyra viðhorf þingmannsins til þess.