150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

dómur Landsréttar vegna lífeyrisgreiðslna TR.

[11:05]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þetta voru sannarlega mistök við lagasetningu, það er hárrétt sem hv. þingmaður segir, og þess vegna var þetta leiðrétt strax í upphafi árs 2017. Niðurstaða héraðsdóms var sú að ríkið hefði brugðist við nægilega fljótt. Landsdómur sneri því við. Það hefur þau áhrif að við erum að greiða þetta út. Ég sé ekki eftir þeim fjármunum sem fara þarna í lægstu tekjutíundirnar en mér finnst mjög sorglegt að þarna fari 3 milljarðar af 6 milljörðum til tveggja tekjuhæstu tíundanna og í boði eins stjórnmálaflokks á Alþingi. Það finnst mér sorglegt. Ég get ekki að því gert að ég hefði viljað nota þá fjármuni til annarra hluta þannig að þeir gætu nýst lægstu tekjutíundunum eða þeim hópi sem við erum að koma með frumvarp inn í þingið fyrir, þeim einstaklingum sem ekki eiga réttindi og við erum að setja sérstakan bótaflokk fyrir. Þessum 3 milljörðum sem fara í hæstu tekjutíundirnar — fyrrverandi alþingismenn, fyrrverandi forstjórar og fyrrverandi bankastjórar eru að fá 400.000–500.000 kr., mér finnst það sorglegt og mér finnst það dapurlegt. En að sjálfsögðu stendur ríkið við þetta og mun greiða þetta út og það verður gert í þessum mánuði eða næsta.