150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

atvinnuþátttaka 50 ára og eldri.

[13:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég þakka hæstv. félags- og barnamálaráðherra fyrir að taka þátt í umræðu um að mínu mati afskaplega brýnt málefni, nefnilega atvinnumöguleika fólks sem komið er yfir miðjan aldur. Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi blessunarlega ekki mælst hátt hérlendis á undanförnum árum má finna sterkar vísbendingar um ákveðnar brotalamir meðal atvinnulausra. Þar á ég við langtímaatvinnuleysi og hverja það hrjáir mest. Þannig má á heimasíðu Vinnumálastofnunar finna tölur, þær nýjustu frá síðasta ári, þar sem sést að eldri aldurshópar meðal atvinnulausra eru lengur atvinnulausir en þeir yngri. Það á bæði við um konur og karla og það sama er upp á teningnum hvort sem horft er til höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar þannig að vandamálið er til staðar óháð báðum þessum þáttum.

Hvað segir þetta um vinnumarkaðinn? Ríkir hér aldursmisrétti á vinnumarkaði? Eru íslenskir atvinnurekendur haldnir aldursfordómum þegar kemur að því að ráða fólk í vinnu? Fólk sem missir vinnuna um eða eftir fimmtugt virðist þannig eiga erfitt með að fá vinnu að nýju. Er þetta fólk úr leik hvað atvinnuþátttöku varðar? Erum við með fólk í gildru seinustu ár starfsævi þess? Margt fólk á þessum aldri er vel menntað og það sem meira er, það hefur unnið sér inn dýrmæta reynslu sem ætti að vera eftirsóknarverð og nýtast vel. Þá hafa margir vinnuveitendur þá reynslu af eldri starfsmönnum að þeir eru gjarnan ábyggilegasta starfsfólk hvers vinnustaðar ef horft er til mætingar og stundvísi. Að vinnufúst fólk á þessum aldri fái ekki atvinnu er merki um mikla sóun í samfélaginu og það er miður. Hér er verið að kasta verðmætum á glæ og öllum arðinum í krafti reynslunnar. Þegar kennitalan fer upp fyrir ákveðin mörk reynist ekki auðvelt að fá atvinnu. Meðalaldur hér á landi hefur hækkað um heil fimm ár frá því um miðjan níunda áratug síðustu aldar, um fjögur ár hjá konum og sex ár hjá körlum. Þetta hefur leitt til þess að nú um stundir ræða menn af kappi um nauðsyn þess að færa eftirlaunaaldur ofar og einnig að gera eigi fólki, eins og til að mynda ríkisstarfsmönnum, kleift að vinna lengur en til sjötugs. Það er í sjálfu sér sjálfsagt mál og þegar þetta er haft í huga er hér um að ræða vandamál sem jafnframt er nauðsynlegt að leysa.

Herra forseti. Hvað er til ráða? Ég tel að þeim sem auglýsa eftir starfsfólki beri skylda til þess þótt ekki væri nema að svara þeim umsóknum sem berast. Allt of margir þeirra sem ég hef rætt þetta mál við kvarta yfir því að þeim sé ekki svarað og að þeir séu ekki virtir viðlits. Síðan má nefna viðtölin. Atvinnurekendur þyrftu að veita miðaldra fólki oftar möguleika á að sanna sig með því að boða það í viðtal. Þá gæti nefnilega komið í ljós að það hefur að sjálfsögðu margt til brunns að bera, ekki síður en yngra fólkið.

Gæti verið lausn að leggja ákveðnar skyldur á ríkið í þessum efnum, leggja á aldurskvóta í anda kynjakvóta eða ættum við að fella út kennitöluna í umsóknum til að hindra að þeim sé kastað í ruslið strax í upphafi? Væri lausn að nýta atvinnuleysisbætur til greiðslu hluta launa við nýráðningar fólks á þessum aldri til að hliðra til í þessum efnum?

Aukin fræðsla er auðvitað sjálfsagt mál, að auka hæfni þessa fólks og auðvelda því að bæta við sig menntun, en ekki síður þarf að auka þekkingu almennt í samfélaginu á vinnufærni eldri starfsmanna. Er réttlæti í því fólgið að atvinnuleysisbætur séu ekki í meira mæli tengdar tímalengd greiðslu tryggingagjalds vegna viðkomandi starfsmanns? Ættu starfsmenn sem hafa unnið áratugum saman ekki að eiga rýmri rétt en þeir sem kannski hafa unnið í nokkur misseri?

Ég vil nefna það hér að í dag lagði ég fram fyrirspurn til skriflegs svars til fjármála- og efnahagsráðherra um aldur þess fólks sem ráðið hefur verið til ríkisins á seinustu árum og svar þeirri fyrirspurn gæti leitt í ljós hvernig ríkið stendur sig gagnvart þeim hópi sem við erum hér að ræða.

Herra forseti. Við þurfum að taka umræðuna um þetta þarfa málefni sem ég veit að brennur á mjög mörgum úti í samfélaginu. Hér blasir við óæskileg staða þessa hóps á vinnumarkaði sem sporna þarf við. Opinberir aðilar sem oft eru stórir vinnuveitendur gætu tekið að sér að vera til fyrirmyndar í þessu efni. Ég hlakka til að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra og annarra þingmanna um þetta málefni og ekki síst hugmyndir um lausnir.