150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

nýsköpunarstefna ríkisstjórnarinnar.

[13:46]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og það gleður mig að heyra að búið sé að forgangsraða 13 aðgerðum. Það væri ágætt að fá að heyra hvort búið sé að fjármagna þær aðgerðir líka. Það skiptir nefnilega rosalega miklu máli. Þá langar mig líka til að spyrja hvort það hafi verið reiknað út hve mörgum krónum hver króna í nýsköpun skilar til baka. Ef við færum út í það, eins og aðrar þjóðir í kringum okkur hafa gert, að reikna það út væri mögulega auðveldara að fá fjármagn í þennan málaflokk.

Svo langar mig líka til að spyrja, þar sem ég tel mikilvægt að ríki og borg séu fyrirmyndir þegar kemur að nýsköpun og nýsköpunarhugsun, út í nýsköpunarstefnu innan ríkisins, hvort ríkið sé með áform um að prófa sig eitthvað áfram í nýsköpun á stjórnsýslustigi, hvort það sé t.d. með í þessari heildarhugsun varðandi nýsköpun.

Við skulum halda okkur við þessar spurningar, annars er þetta orðið of mikið hjá mér. Hvernig er árangurinn mældur varðandi það að reikna út hve miklu hver króna í nýsköpun skilar til baka? Og svo er það nýsköpun hjá ríkinu á stjórnsýslustigi. Það væri gott að fá svör við þessu.